138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur að það stingur í augun hversu seint fram komið þetta frumvarp er en skýringar ráðherrans voru þær að Seðlabankinn hefði verið að vinna þetta.

Það vekur athygli mína sem segir hér að samkomulag hafi verið um þá rannsókn að þeim gögnum yrði eytt og sú eyðing hefði farið fram í lok febrúar 2010 og að þessi rannsókn ef rétt er skilið byrji um mitt ár 2010 og standi fram á mitt ár 2013. Þá spyr ég: Hvað með þetta millibil ef búið er að eyða gögnunum fyrir 2010 og við fáum engar nýjar upplýsingar úr þessari rannsókn fyrr en eftir einhverja mánuði? Á hverju á að byggja í millibilsástandinu? Hefði ekki verið rökrétt að semja einhvern veginn við Persónuvernd um að byggja á gögnum frá Seðlabankanum? Þarna fer dýrmætur tími til spillis og dýrmætar upplýsingar. Þó ég hafi samúð með persónuverndarsjónarmiðum þá má ekki festast þannig í þeim að það verði rannsóknum til trafala. Ég ætla því að spyrja hvort algerlega sé búið að girða fyrir að hægt sé að nýta þann grunn með einhverjum hætti og þá með öðrum samningum. Þá er spurningin þegar verið er að taka fullt af ákvörðunum: Á hverju byggja þær ákvarðanir ef þær eiga við þetta millibil, sé það rétt skilið hjá mér? Þá hljómar þessi spurning kannski þversagnakennd, að ég sé að hvetja til þess að þetta verði gert.

Svo spyr ég af því að ég rek augun í (Forseti hringir.) að ekki er gert ráð fyrir þessum 50 millj. kr. útgjöldum í útgjaldaramma ráðuneytisins: Hvar á að taka peningana (Forseti hringir.) til að vinna að þessum rannsóknum?