138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:42]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf aðeins að skýra yfirlýsinguna um að gögnum hafi verið eytt í febrúar 2010. Það sem gerðist á þeim tíma var að í samræmi við fyrirmæli Persónuverndar var dulkóðunarlyklum eytt þannig að ekki er lengur hægt að tengja gögn við einstaklinga sem er mikilvægt frá persónuverndarsjónarmiði. Gögnin eru auðvitað enn til, þau eru bara ekki persónugreinanleg. Þar fyrir utan liggja niðurstöðurnar úr þeirri rannsókn fyrir þannig að það eina sem er ekki hægt að gera er það sem kallað er á fræðimáli þversniðsrannsókn, þar sem við tengjum saman tilteknar persónur 2008 og 2009 í gögnunum sem Seðlabankinn var þá með við gögn sömu einstaklinga 2010 og síðar. Það er vissulega galli en hann vegur ekki mjög þungt. Niðurstöðurnar frá 2008 eru lýsandi fyrir ástandið eins og það var þá og síðan þarf nýja lýsingu á ástandinu nú og framvegis og bera þær tölur saman til að sjá árangur. Ekki er hægt að rekja stöðu tiltekinna einstaklinga fyrir febrúar 2010 nema gögnunum sé safnað aftur með persónugreinanlegum hætti og er það mjög dýrt.

Það sem unnið var með síðasta haust þegar kynnt voru ýmis úrræði fyrir skuldsett heimili var það sem lá fyrir þá og var í alþjóðlegum samanburði mjög góð lýsing á skuldastöðu íslenskra heimila á síðasta ári. Hún var mjög góð þá. Hún er auðvitað að einhverju marki úrelt núna en kemur á réttum tíma í þeim skilningi að hún gefur okkur bestu niðurstöður sem hægt er að fá. (Forseti hringir.)