138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[22:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessar upplýsingar. Ég tel nefnilega að þessar upplýsingar séu allar til persónugreinanlegar langt aftur í tímann, hjá skattinum í allt að sex ár. Mér finnst sjálfsagt að nota þetta allt saman bara fyrir allt heila þjóðfélagið. Það er nefnilega ekki svo voðalega dýrt að keyra þessi gögn saman, sérstaklega eftir að Seðlabankinn hefur rutt brautina. En það þarf kannski að ræða við Persónuvernd um það hvort þær kröfur sem hún gerir til þess að eyðileggja diska og annað slíkt eftir hverja keyrslu, og alls konar skrýtnar kröfur, sé ekki óþarfi og hvort menn geti ekki haft smávegis traust á þeim opinberu stofnunum sem mundu annast þessar keyrslur þannig að það geti gengið hratt fyrir sig. Ég held nefnilega að það sé mjög mikilvægt að menn viti hvernig staðan var fyrir hrun og helst bara mánuð fyrir mánuð og líka fram í tímann til að sjá hvernig aðgerðir lukkast sem að er stefnt.