138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf aðeins að jafna mig á ræðu vinar míns hv. þm. Péturs Blöndals. Ég held að hann hafi alveg farið með það þegar hann talaði um drauminn sinn um að setja GPS í alla bíla. (PHB: Þetta er ekki draumur.) Það er kannski spurning að setja á maka líka því að maður hefur oft ekki hugmynd hvar þeir eru, ég tala nú ekki um þegar maður er búinn að setja á börnin. Þá getur maður alltaf flett upp á skjánum hvað þau eru að bardúsa. Svo þurfum við bara slatta af öryggismyndavélum og þá getur þetta orðið ansi gott. Þá getur maður fylgst með öllum alltaf. Þreytandi einkalíf fólks þvælist auðvitað fyrir. Hvað hefur fólk að gera með einkalíf? Fullt af hæfu fólki getur fylgst með öðrum. Ég tala nú ekki um þegar við erum komin með fjárhagslega gagnagrunninn og keyrum hann saman við rafrænu sjúkraskrána. Þá getur maður líka fengið útprentun frá hinu opinbera á morgnana um hvað maður á að gera og hvernig maður á að haga sér. Þetta verður örugglega hið fullkomna þjóðfélag.

Nei, virðulegi forseti, að öllu gamni slepptu skulum við aðeins draga andann djúpt og líta mjög gagnrýnið á þetta. Þó að við fengjum allar þessar upplýsingar á morgun þá þurfum við alltaf að taka aðstöðu til þess hvaða aðgerðir við eigum að fara í og allar þær aðgerðir sem við förum í eru sama marki brenndar, að ekkert er fullkomið. Það er útilokað að við komum með hina fullkomnu lausn til bjargar vanda heimilanna. Ég get lofað ykkur því að þó að við færum í þennan stórkostlega fjárhagslega gagnagrunn þá gætu menn sagt: Hér vantar ýmislegt. Þannig að við skulum nálgast þetta út frá því að í þjóðfélaginu séu sjálfstæðir einstaklingar og að við þurfum ekki að vita allt um alla. Það er ekki hollt fyrir okkur.