138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er langt liðið á kvöldið og ég ætla ekki að lengja þessa 1. umr. um málið mikið en þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þess. Vinna Seðlabankans við að greina skuldavanda heimilanna hefur verið gagnmerk og gríðarlega mikilvæg og hefur sannarlega nýst við að taka ákvarðanir um ný úrræði. Við erum einmitt með allnokkur slík úrræði til umfjöllunar í þinginu núna og væntum þess að fá fleiri tillögur í þeim efnum. Gagnagrunnur Seðlabankans er byggður upp til að greina hvaða hópar eru í mestum vanda og hvar aðstoðarúrræði geta nýst best og er mest þörf. Hann nýttist sannarlega vel við það. Augljóst er að í þeirri miklu óvissu sem við búum við á Íslandi í efnahagsmálum núna og munum gera óhjákvæmilega næstu missirin þá munum við þurfa stöðugt endurmat á þessari stöðu. Við eigum líka að vera bjartsýn þó að staðan sé sannarlega erfið núna vegna þess að við Íslendingar eigum langa sögu um að rífa okkur í gegnum kreppur eins og þessa á tiltölulega skömmum tíma.

Þegar kemur að fjárhagsstöðu heimilanna í landinu búum við í raun og veru við algera sérstöðu, tækifæri sem önnur samfélög hafa ekki í neinni líkingu við það sem við höfum sem eru einmitt upplýsingar sem hægt er að greina af miklu öryggi og þó gæta persónuverndarsjónarmiða. Frumvarpið er til þess fallið að nýta þessa einstöku innviði íslensks samfélags til að greina sem best verkefni og vandann eins og hann er á hverjum tíma og geta þannig sífellt vaktað þetta mikilvæga viðfangsefni. Ég held að þær áhyggjur sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson lýsti við umræðuna séu sannarlega áhyggjur sem menn eiga að hafa í huga í íslensku samfélagi við rafræna, miðlæga upplýsingaöflun um ýmiss konar efni. Það er hins vegar svo að nánast allar þær upplýsingar sem hér er fjallað um eru hjá skattinum eins og við þekkjum öll í efnahags- og skattanefnd. Þar hafa menn beinan aðgang að þeim á netinu með lyklum. Þetta eru upplýsingar um tekjur, eignir, fjármagnstekjur, innstæður, um aðrar eignir, bætur, erfðafé og hvað eina sem lýtur að fjárhagsmálefnum einstaklinga. Þetta hefur breyst mjög hratt á undanförnum árum og auðvitað getur verið fullt tilefni til að gæta að öryggi þessara grunna og að upplýsingarnar séu varðveittar með þeim hætti sem best verður á kosið og að ekki sé safnað upplýsingum um fólk að óþörfu.

Ég held að sú greiningarvinna sem við höfum fengið frá Seðlabankanum til þessa hafi sannarlega sýnt okkur fram á að slíkar greiningar eru gagnlegar. Þar sem við lifum á óvissutímum og megum vænta breytinga á stöðu mála frá einu missiri til annars er mikilvægt að hafa þessa vakt. Ég held að mikilvægt sé að efnahagsráð ríkisstjórnarinnar fái þær upplýsingar fljótt og vel eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ég held að það sé líka mikilvægt að jafnframt sé þinginu gert grein fyrir stöðunni jafnóðum og í meðhöndlun málsins í nefnd eigi að tryggja að svo verði.