138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er ekki að leyna að okkur í stjórnarliðinu væri auðvitað ákveðið gagn að því og mundum við mörg fagna því að geta haft staðsetningarbúnað á hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni þannig að við vissum úr hvaða átt hann kæmi að okkur hverju sinni. En til að ég undirstriki afstöðu mína í málinu þá held ég að í þessu máli sé sérstaklega vel gætt að persónuverndarsjónarmiðum, þess sé gætt að gögnum sé eytt, gætt sé að dulkóðun, afkóðun, aðgangi og öllu slíku vegna þess að málið er sérstakt. Ég tók fyrst og fremst undir varnaðarorð hv. þingmanns hvað viðvíkur ýmsum öðrum gagnagrunnum sem hafa byggst upp á undanförnum árum og getur verið ástæða til að fara yfir hvort sem er hjá skattinum eða annars staðar.

Hvað viðvíkur því hvort ekki væri hægt að taka úrtök hjá skattinum held ég að viðbótarupplýsingarnar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að kalla fram, sem eru auðvitað hvað mikilvægastar og eru ekki til hjá skattinum, er nauðsynlegt að bera saman við fjárhagsupplýsingarnar. Það eru upplýsingarnar um greiðsluflæði, innborganir, hvaða lán er verið að þjónusta og hver ekki, hvað er í skilum og hvað ekki. Við erum fyrst og síðast að reyna að átta okkur á hvernig fólki gengur að standa við skuldbindingar sínar frá mánuði til mánaðar og reyna að afmarka hvaða hópar á hverjum tíma geta lent í erfiðleikum með það eða þurfa sérstakra úrræða við.