138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna afhjúpaði hv. þingmaður samsæri stjórnarmeirihlutans um að koma flögu í þann sem hér stendur til að geta fylgst með honum. Mig grunaði þetta alltaf, virðulegi forseti, að þetta væri málið. En að öllu gamni slepptu sagði hæstv. ráðherra áðan: Ég hefði aldrei lagt þetta fram við eðlilegar aðstæður en þetta eru sérstakar aðstæður. Ef við förum aðeins yfir hve oft þetta gerist. Bandaríkjamenn gjörbreyttu stjórnkerfi sínu og lagaumhverfi eftir 11. september 2001. Ég er ekki viss um að það hafi allt verið skynsamlegt. Bretar gerðu það líka og vitið þið hvaða lög þeir settu, virðulegi forseti? Vitið þið hvaða lög þeir settu? Þeir settu hryðjuverkalögin. Síðan kom einhver breskur þingmaður og hvort það voru ekki fleiri og sagði: Hér erum við með tæki sem hægt er að misnota. Það er hægt að nota þetta í einhverjum allt öðrum tilgangi en berjast gegn hryðjuverkamönnum. Þá kom karl sem heitir Gordon Brown og sagði að þetta væri tómur misskilningur, enda væri þetta gert af sérstökum ástæðum.

Virðulegi forseti. Þarf ég að útskýra hvernig hryðjuverkalögunum var beitt af Bretum? Þeim var svo sannarlega ekki beitt gegn hryðjuverkamönnum. Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar við búum til eitthvað sem við mundum annars aldrei gera við eðlilegar aðstæður og ég vona að hv. þingmaður líti á þetta mjög gagnrýnum augum með mér.