138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef áður tilgreint held ég að það sé ekki annað en virðingarvert að leitast við að gæta persónuverndarsjónarmiða og gjalda varhuga við því að upplýsingum sé safnað í of miklum mæli um einstaklinga að óþörfu. Hvað varðar hins vegar eðlilegar og óeðlilegar aðstæður er það náttúrlega þannig að frumvarpið væri ekki flutt nema vegna þess að aðstæðurnar eru óeðlilegar. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að það sem rannsaka þarf eru nákvæmlega hinar óeðlilegu aðstæður og ef þær væru ekki fyrir hendi væri ekkert til að rannsaka. Þetta er auðvitað algerlega fordæmalaus staða sem við erum í. Ég held að ef tryggt er öryggi þeirra upplýsinga sem við erum að tala um sem ég tel mikilvægt að farið verði yfir í nefndarstarfinu, séu ekki neinar aðrar augljósar hættur því samfara að veita framkvæmdarvaldinu þessar heimildir. Ég vek athygli á því að þær eru tímabundnar fyrir tímabundið ástand og þess vegna ekki varanlegar heimildir sem síðar meir yrði hægt að misnota í einhverjum öðrum og annarlegum tilgangi.