138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi er kannski rétt að geta þess að fyrir utan þá. rannsókn sem lýst er í lagafrumvarpinu hefur ráðuneytið beitt sér fyrir söfnun ýmissa talna um skuldastöðu heimila í góðri samvinnu við m.a. Samtök fjármálafyrirtækja. Þær tölur byggja augljóslega ekki á einstaklingsgögnum en eru teknar saman úr bankakerfinu og gerðar sambærilegar. Ég á von á að hægt verði að birta þær tölur innan nokkurra daga þannig að þær munu varpa einhverju ljósi á þessi mál umfram það sem við þekkjum nú þegar og síðan er hugmyndin að birta þær reglulega, jafnvel mánaðarlega. Von er á tölum úr rannsóknum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins eða rannsóknum sem það ráðuneyti hefur staðið fyrir mjög fljótlega en niðurstöður úr þeirri rannsókn sem hér er sérstaklega til umræðu munu augljóslega taka talsverðan tíma í vinnslu. Í því samhengi er kannski hægt að hafa til hliðsjónar þann tíma sem þetta tók Seðlabankann í fyrra. Nú man ég ekki alveg nákvæmlega dagsetningar í því en ef ég man rétt byrjuðu þær fljótlega upp úr áramótum 2008/2009 og voru menn komnir síðla vetrar með bráðabirgðaniðurstöður og svo snemma um sumarið áreiðanlegri niðurstöður. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að vinna ráðuneytisins gæti gengið hraðar í og með vegna þess að Seðlabankinn er búinn að ryðja brautina þannig að ýmislegt í aðferðafræði og öðru liggur nú þegar fyrir. Auk þess mun frumvarpið gera mönnum kleift að stytta sér leið umfram það sem Seðlabankinn gat vegna þess að hann hafði ekki jafnskýra lagaheimild að baki sinni upplýsingaöflun. Ég held að þetta ætti ekki að taka mjög langan tíma. Við erum hins vegar ekki að tala um daga, þetta eru kannski nokkrar vikur, vonandi ekki margir mánuðir.