138. löggjafarþing — 109. fundur,  20. apr. 2010.

rannsókn á fjárhagsstöðu skuldugra heimila.

570. mál
[23:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið enda er orðið áliðið. Í fyrsta lagi vil ég benda á að í kjölfar kreppna víða um heim hefur skipt öllu máli hvernig menn hafa brugðist við skuldavanda, hvort það hafi verið gert hratt og vel og afgerandi eða hvort menn hafi verið með þennan vanda í lengri tíma, jafnvel áratugi hangandi yfir sér gjaldþrot og úrræðaleysi til lausnar vandanum. Þess vegna tel ég mjög brýnt að við tökum á þessum vanda hratt og vel.

Frá því stuttu eftir hrun hafa menn rifist um vandann, hve margir séu í vonlausri stöðu og hvort þurfi að fara í flatan niðurskurð o.s.frv. o.s.frv. Það er dálítið undarlegt að talað hafi verið í heilt ár um einhver úrræði þegar menn vita ekki hver vandinn er, þannig að ég fellst á það að eitthvað þurfi að gera. Ég er líka sammála því sem komið hefur fram að frumvarpið kemur fullseint fram og eiginlega allt of seint en það helgast kannski af því að Seðlabankinn var að vinna slíka vinnu en þau gögn runnu út og hurfu þannig að menn gátu ekki notað þau áfram. Það er mjög miður og það er bara óskaplega skaðlegt.

Spurt hefur verið hvort ekki megi nota úrtak. Það er rétt, það er alveg hægt að nota úrtak, taka sæmilega stórt úrtak, kannski 5 þúsund manns úr þjóðskrá og vonast til að maður nái í sem flest þau tilfelli sem koma upp í þessum skuldavanda. Það yrði náttúrlega að gæta þess úrtaks með nákvæmlega sama hætti og persónuverndin yrði jafnvandasöm í því. Ég held að það sé ekki mikill eðlismunur á því að taka 5 þúsund manna úrtak eða 10 þúsund manna úrtak og að taka bara 300 þúsund manna úrtak, taka sem sagt alla þjóðina þar sem mjög margir eru ekki með nein fjárhagstengsl eins og t.d. börn.

Rætt var um það í sambandi við gagnagrunninn um Íslenska erfðagreiningu og líka um ýmsa aðra grunna sem eru notaðir, t.d. lyfjagrunna, að það kynni að koma upp eftir kannski 20–30 ár grunur um að ákveðið lyf hafi ákveðin áhrif. Það getur verið að eitthvert lyf hafi læknað einhvern allt annan sjúkdóm en menn áttu von á, sjúkdóm sem menn hafa uppgötvað seinna meir, eða hafi valdið einhverju tjóni sem menn áttu ekki von á. Þá getur verið mjög verðmætt og getur varðað líf og dauða manna að þær upplýsingar liggi fyrir hvaða áhrif lyfið hafði fyrir 30–40 árum. En þá er það spurningin: Eigum við að geyma allar þessar upplýsingar svona óskaplega lengi? Þetta er það sem menn hafa verið að rífast um, kosti og galla, hvar nýtast þessi gögn og hvað tapast. Það sem nýtist er náttúrlega það að við getum notað slík gögn í miklum mæli til að leysa alls konar vandamál en þau eru hættuleg fyrir persónuverndina og þá kemur það sjónarmið.

Ég hef látið mér detta í hug að búið yrði til einhvers konar svarthol sem gögnum yrði dælt inn í og unnið úr þeim undir mjög tryggu eftirliti og gögn færu aldrei út þarna nema sem samantekin gögn. Ég held að hv. nefnd sem fær málið til umfjöllunar ætti að skoða það. Slíkt yrði þá gert í mjög góðu samráði við Persónuvernd og það sem menn eru að gera annars staðar í heiminum. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég ætla að ljúka með því að segja að þær niðurstöður sem koma fram verða að sjálfsögðu að nýtast Alþingi. Alþingi setur lögin, það er Alþingi sem á að hanna þau úrræði sem mynda lagarammann utan um lausnina til að ná fram því sem ég gat um í upphafi, að leysa skuldavandann, óleysanlegan skuldavanda með einhverjum ráðstöfunum, lagaráðstöfunum, eins fljótt og hægt er vegna þess að það er mjög brýnt að það sé gert til að glíma við afleiðingar hrunsins.