138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni þessa fyrirspurn. Hún lýtur að verkefni sem hefur verið í undirbúningi á vegum fyrirtækisins Verne Holdings ehf. um nokkurra ára skeið en það felur í sér að setja upp alþjóðlegt gagnaver á Suðurnesjum. Ég deili því viðhorfi sannarlega með fyrirspyrjanda að hér er verkefni sem felur í sér afar mikilsverða og kærkomna viðbót við atvinnustarfsemina á Suðurnesjum, en hvergi á landinu er hlutfall atvinnulausra hærra en einmitt þar, eða 15% samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar.

Viðfangsefni nefndarinnar er fjárfestingarsamningur milli stjórnvalda og Verne Holdings um þetta verkefni sem á að skapa því stöðugri grundvöll varðandi skattalega meðferð, opinber gjöld o.s.frv. Hann er talinn afar mikilvægur varðandi möguleika Vernes á því að tryggja samninga við erlenda viðskiptavini sem horfa mjög til þess að vænta megi stöðugleika í þeim ramma sem stjórnvöld skapa atvinnulífinu á komandi árum.

Ég hef óskað eftir því að iðnaðarnefnd komi saman á föstudaginn til þess að halda áfram meðferð þessa máls. Það var sjónarmið meiri hluta nefndarinnar að okkur bæri skylda til að bíða eftir niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og meta þá sérstaklega hver hlutur Björgólfs Thors Björgólfssonar yrði í henni áður en málið yrði tekið úr nefnd. Nú liggur skýrslan fyrir og ég hef óskað eftir því að nefndin komi saman á föstudag til að meta áhrif hennar á framvindu þessa máls.

Það viðhorf hefur komið fram, og ég tel eðlilegt að menn tali um það eins og það er, að í einhverjum skilningi sé óeðlilegt að stjórnvöld samþykki gjörning sem feli í sér sérstaka fjárhagslega fyrirgreiðslu við einn þeirra einstaklinga sem léku stórt hlutverk í aðdraganda bankahrunsins, og deila ábyrgð á þeim hamförum sem kallað hafa þungar búsifjar yfir þjóðina. Þetta er eitt af þeim viðhorfum sem nefndin þarf að taka til greina, jafnframt því að virða grunnreglur réttarríkisins um að hver maður (Forseti hringir.) sé talinn saklaus uns sekt er sönnuð.

Þetta eru þau sjónarmið sem við erum að meta í iðnaðarnefnd en ég ítreka að það er vilji minn að finna lausn sem tekur tillit (Forseti hringir.) til þessara siðferðislegu álitamála án þess að grafa undan verkefninu sem slíku.