138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni iðnaðarnefndar þau svör sem hann gaf hér. Ég fagna því að iðnaðarnefnd skuli vera boðuð til fundar á föstudag. Ég hefði reyndar kosið að það fundarboð hefði verið komið heldur fyrr þar sem ekki var gert ráð fyrir þessu í dagskrá þingsins og menn búnir að gera ráðstafanir til að fara út í kjördæmin. En ég mun reyna af fremsta megni að koma á þennan fund á föstudaginn.

Þetta verkefni Verne Holdings á Suðurnesjunum hefur verið stopp í iðnaðarnefnd af ákveðnum siðferðislegum ástæðum og það er út af fyrir sig eðlilegt að fólk vilji ræða þá hlið mála í því andrými sem er í samfélaginu í dag. Hitt er svo annað mál að að þessu fyrirtæki, eins og ég sagði áðan, eru komnir mjög öflugir aðilar, viðurkenndir á alþjóðavettvangi. Þeir munu eiga meiri hluta í því og það er okkar á Alþingi að greiða fyrir atvinnulífinu eins og við getum um þessar mundir og reyna að skapa öflugt og efnilegt atvinnulíf. Við megum þess vegna ekki láta það fólk sem var í tengslum við útrásina, og átti vissulega stóran þátt í hruni íslensks efnahagslífs, eyðileggja tækifæri þegar svo stór og efnileg fyrirtæki eru komin að og eru að ræða við ein stærstu fyrirtæki á alþjóðavettvangi sem nýta slíka þjónustu. Það yrði íslensku atvinnu- og efnahagslífi til mikils framdráttar ef þau fyrirtæki mundu velja Ísland sem vististað fyrir gögn sín í slíkri starfsemi.

Ég vil ítreka spurningu mína til hv. þm. Skúla Helgasonar varðandi ummæli forseta Íslands. Mjög harkaleg viðbrögð hafa komið frá ferðaþjónustunni varðandi ummæli hans um mögulegt eldgos hér í framtíðinni. Beðið hefur verið eftir eldgosum í tugi ára og lengi hafði verið beðið eftir jarðskjálftum, það er alveg út úr kortinu að vera með einhvern hræðsluáróður. Ég vil ítreka spurninguna um það hvort iðnaðarnefnd verði kölluð saman (Forseti hringir.) til að ræða við fulltrúa ferðaþjónustunnar um möguleg áhrif þessara ummæla og ég spyr hv. þingmann hvernig hann meti áhrifin af ummælum forseta Íslands.