138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég hef líkt og aðrir verið að glugga í og lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þessi bindi, og sú lesning er á margan hátt mjög fróðleg. Hún hefur valdið því að þrír þingmenn hafa farið í tímabundið leyfi og mig langar aðeins að ræða um málefni því tengd.

Í gegnum tíðina hafa allmargir alþingismenn fengið lausn frá þingmennsku áður en kjörtímabil hafa klárast. Ýmsar ástæður hafa legið að baki því að þingmenn hafa tekið þá ákvörðun að hverfa af þingi. Flestir hafa hætt af persónulegum ástæðum, t.d. vegna þess að þeir hafa snúið til annarra starfa, vegna veikinda eða annarra þátta. Ekki hefur verið algengt að alþingismenn og/eða ráðherrar hafi sagt af sér þingmennsku af öðrum ástæðum en að framan greinir. Í skýrslunni er hart deilt á Alþingi og vinnubrögðin hér, þá menningu sem hér hefur verið. Við höfum bæði skrifaðar og óskrifaðar reglur, og það er sú stjórnmálamenning sem hér ríkir.

Ég velti því fyrir mér hvar við viljum draga víglínur í þessum efnum. Mér varð hugsað til afsagnar þingmanns sem sagði af sér þingmennsku 2008. Það var þegar fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Bjarni Harðarson, sagði af sér þingmennsku. Það var, eins og frægt er, vegna þess að hann hafði fyrir mistök sent bréf frá flokksmönnum með harðri gagnrýni á Valgerði Sverrisdóttur fyrir það hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla sagði hann að hann hefði af þeirri ástæðu ákveðið að segja af sér þingmennsku enda hafi það ævinlega verið sannfæring hans að menn eigi alltaf að axla ábyrgð á eigin gerðum. (Forseti hringir.) Ég vil ekki sitja hér í einhverju dómarasæti en mér finnst að við þurfum öll að horfa á það hvernig við viljum sjá þingið þróast.

Um þessa afsögn Bjarna Harðarsonar sagði Gunnar Helgi (Forseti hringir.) Kristinsson að eiginlega væru engin fordæmi fyrir því að þingmenn segðu af sér af einhverju slíku tilefni og (Forseti hringir.) reyndar væru ákaflega fá dæmi (Forseti hringir.) um það að hvort heldur sem er ráðherrar eða þingmenn segðu af sér á Íslandi. Ég held að við ættum aðeins að velta þessu fyrir okkur og líta í eigin (Forseti hringir.) barm.