138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:17]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vildi bara koma hingað upp til að taka undir með þeim þingmönnum sem undanfarna daga og vikur hafa rætt um stöðu Alþingis og þann lærdóm sem draga megi af rannsóknarskýrslunni. Við erum eflaust öll enn að lesa skýrsluna og verðum að því næstu daga og vikur því að þetta er jú mikill bálkur. En við verðum að draga af þessu skýran lærdóm. Það er starf þingmannanefndar um rannsóknarskýrsluna að hjálpa okkur til þess og setja það niður á blað og staðfesta en um það verður líka að vera þverpólitísk samstaða, það er meginmálið. Við þingmenn varðveitum og eflum sameiginlega sjálfstæði Alþingis með ráðum og dáð á allan hátt.

Eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu og með þeim lögum sem það vill setja er mikilvægur þáttur en líka stjórnmálamenning okkar, líka sá kúltúr sem hér viðgengst innan húss, hvernig við ræðum saman, hvernig við nálgumst hvert annað í vinnubrögðum, hvernig það er metið að t.d. stjórnarliðar spyrji sitt eigið framkvæmdarvald út úr hlutunum, hvernig bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar krefjast upplýsinga fyrir hönd þingsins og spyrja gagnrýnna og sjálfstæðra spurninga. Þetta er allt liður í betri stjórnmálamenningu innan þingsins. Þar held ég að við verðum öll að taka höndum saman.

Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr þessari sérstöku þingmannanefnd. Ég held við getum öll hjálpast að og lagt fram tillögur til hennar, bæði nýliðar sem hér hafa verið í stuttan tíma, eins og sú sem hér stendur, og þeir sem hafa verið hér í lengri tíma og hafa reynslu, þekkingu og innsýn en eru um leið kannski líka grónir inn í (Forseti hringir.) tiltekin vinnubrögð sem við viljum breyta.