138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

störf þingsins.

[12:24]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér finnst tilefni til að ræða aðeins skoðanir hv. þm. Péturs Blöndals, sem hann hefur svo oft og svo ítrekað orðað hér, á því hvernig löggjöf ætti í mun meira mæli að verða til hér á Alþingi, í stað þess að við tökum endalaust við frá ráðuneytum. Ég er sammála því á ýmsan hátt að hér eigi að verða til meiri löggjöf, hér eigi að greiða mun meir fyrir t.d. þingmannamálum. En ég er hins vegar ekki sammála því að þetta verði allt að verða til hér innan þingsins. Það er til alls kyns sérhæfð þekking innan ráðuneytanna og þar eru ráðherrar með hugmyndir sínar og pólitíkina um hverju þurfi að breyta. Það er sjálfsagt að það komi hér inn. Lykilatriðið er þá að þingið hafi nægan tíma, nægan mannskap og nægilega gott verklag í raunverulegri menningu sinni til að taka hvert og eitt mál sem hér kemur fyrir mjög alvarlega og taka í það, eins og hér hefur komið fram, þann tíma sem þarf. Það skiptir líka máli að kúltúrinn sé slíkur að það sé sjálfsagt mál og æskilegt, í augum stjórnarliða og ríkjandi stjórnvalds hverju sinni, að þingið taki sér þessa stöðu, að það sé engin móðgun við einn né neinn, ekki verið að ráðast gegn ríkisstjórn með einum eða öðrum hætti, ef Alþingi tekur sér þessa stöðu, vegna þess að það sé sjálfsagt mál og þá verða bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar að taka saman höndum um það.

Hv. þm. Atli Gíslason og fleiri hafa bent á að til eru handbækur um hvernig fara eigi með mál en margar leiðbeiningar og reglur eru þar þverbrotnar og hafa verið í gegnum árin. Við ættum kannski að lesa þetta saman reglulega og sjá hvernig við getum breytt þessu. Ég held hins vegar að þetta taki tíma en (Forseti hringir.) grunnforsendan er náttúrlega viljinn til þess að breyta þessu. Ég held að hann hljóti að vera til staðar núna í kjölfar þessarar skýrslu ef hann var þá ekki til staðar fyrr.