138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

fjárfestingarsamningar og atvinnugreinar.

263. mál
[12:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að koma hingað til að svara þessari fyrirspurn minni. Það hefur staðið til í nokkurn tíma að við hittumst og ræddum þetta mál en eins og gengur hefur það ekki tekist.

Fyrirspurnin sem lögð er fram hljóðar svo:

„Í hvaða atvinnugreinum, þ.e. iðnaði, hátækni o.s.frv., eru fjárfestingarsamningar sem unnið er að og hve margir eru í vinnslu í hverri atvinnugrein?“

Ég er að reyna að átta mig á því og vil að þingið geti áttað sig á því að hve mörgum samningum á þessu sviði er unnið í iðnaðarráðuneytinu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að efla erlenda fjárfestingu í landinu og að sjálfsögðu einnig innlenda. Það væri afar æskilegt ef við gætum, eins og ég veit að unnið er að víða, liðkað fyrir erlendri fjárfestingu.

Ég vil nota tækifærið og lýsa mikilli ánægju með þá vinnu sem unnin hefur verið hjá Fjárfestingarstofu, sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið, við að laða að erlenda fjárfesta. Engu að síður er mikilvægt fyrir okkur að þingið fái upplýsingar um það hvaða vinna er í gangi í ráðuneytinu og að hverju er unnið, hvort þessir samningar eru fáir eða margir og misjafnir eftir atvinnugreinum og allt þess háttar, það eru eflaust til skýringar á slíku. Við vitum að fjárfestingarsamningar hafa verið í vinnslu og verið gerðir varðandi t.d. álverið í Helguvík. Fjárfestingarsamningur eða drög að slíkum samningi varðandi gagnaver í Reykjanesbæ er í meðförum hjá þinginu. Ég man ekki eftir öðrum samningum sem eru í meðferð eða hafa verið gerðir nú á síðustu mánuðum þannig að afar gott væri ef hæstv. ráðherra getur varpað ljósi á það hver staðan er í þeim málefnum.

Við þurfum líka að spyrja okkur að því hvort þau úrræði sem við höfum í dag til að laða að erlenda fjárfesta og vinna með þeim séu nægilega öflug og hvort við getum eflt þá starfsemi sem þar er í gangi.

Frú forseti. Fyrirspurnin er sem sagt: „Í hvaða atvinnugreinum, þ.e. iðnaði, hátækni o.s.frv., eru fjárfestingarsamningar sem unnið er að og hve margir eru í vinnslu í hverri atvinnugrein?“