138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

fjárfestingarsamningar og atvinnugreinar.

263. mál
[12:42]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst gæta ákveðins misskilnings í máli hv. þingmanns vegna þess að ég fór yfir það áðan hvílíkt ferli einn einstakur fjárfestingarsamningur við einstakt fyrirtæki er. Það felur ekki bara í sér samningaviðræður heldur sérstök lagafrumvörp á þingi fyrir hvert og eitt verkefni og síðan fer hvert einstakt verkefni jafnframt til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þegar þetta frumvarp um ívilnanir lá fyrir sáu þessi fyrirtæki auðvitað að það væri beinlínis óskynsamlegt fyrir þau og borgaði sig ekki að fara í samningaviðræður um gerð einstakra fjárfestingarsamninga við ríkið, ég tala ekki um minni og meðalstærri kosti sem hingað vilja koma. En það liggur fyrir að þessar tvær minni gerðir af fjárfestingarsamningum sem gerðar hafa verið við Becromal og Tomahawk eru miklu meira minnisblöð. Það er ekki hægt að kalla þetta minnisblöð heldur eru þetta beinlínis yfirlýsingar um að gerður verði fjárfestingarsamningur og á hverju hann mun byggja, þannig að ég held að áhyggjuefni hv. þingmanns ættu vonandi að vera blásin út af borðinu vegna þess að þetta er einfaldlega ástæðan. Fyrirtækin sem hingað horfa fagna því að þessi leið sé farin vegna þess að fyrir hvert og eitt þeirra er ferlið við gerð einstakra fjárfestingarsamninga rándýrt og gríðarlega þungt að fara í gegnum.

Eins og ég dró fram með upptalningunni og söguskýringunum, eins og hv. þingmaður kallaði það, þá hafa fjárfestingarsamningar hingað til eingöngu hentað þeim allra stærstu. Það er það ferli sem við viljum koma okkur út úr og vera aðlaðandi líka fyrir meðalstóra og minni fjárfestingaraðila og í gegnum svona frumvarp tekst okkur það vegna þess að þá erum við búin með þinglegu meðferðina og meðferð Eftirlitsstofnunar EFTA (Forseti hringir.) og eingöngu samningaferlið sem stendur út af.