138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

uppbygging fiskeldis.

216. mál
[12:48]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir spurninguna og áhugann á fiskeldi.

Um skoðun ráðherra á uppbyggingu fiskeldis og sér í lagi þorskeldis vil ég segja í upphafi að á árinu 2008 var útflutningsverðmæti fiskeldisafurða 3,3 milljarðar miðað við meðalgengi ársins 2008. Þar af var útflutningsverðmæti bleikju um 2 milljarðar kr. Gera má ráð fyrir svipaðri framleiðslu á árinu 2009. Mjög hefur dregið úr laxeldi á síðustu árum en framleiðsla eldislax var næstum 7.000 tonn á árinu 2006 en var aðeins tæp 300 tonn á árinu 2008. Á sama tíma hefur bleikjueldi vaxið og var um 3.000 tonn á síðasta ári. Ísland er leiðandi á heimsvísu í bleikjueldi og má fullyrða að öflugt bleikjukynbótastarf Hólaskóla á undanförnum árum hafi ráðið mestu um þróun bleikjueldis hér á landi.

Nýlega var gerður samningur um áframhaldandi bleikjukynbótastarf Hólaskóla og af því að hv. þingmaður vék að þessu máli þá átti sá sem hér stendur frumkvæði að því að koma á þessum skipulegu bleikjukynbótum og bleikjueldi í landinu sem hefur gengið einstaklega vel, ekki síst vegna þess hversu góður grunnur var að því lagður. Í þessu sambandi má enn fremur geta þess að í nýlegri skýrslu Landssambands fiskeldisstöðva, um stöðu fiskeldis á Íslandi, kemur glögglega fram mikilvægi bleikjukynbótanna. Þess má geta að á árinu 2008 lét ráðuneytið gera úttekt á bleikjukynbótastarfi Hólaskóla. Niðurstaða úttektarinnar var að mjög vel hefði tekist til með þetta verkefni og árangur af starfinu væri mjög mikilvægur fyrir framleiðendur bleikju í landinu öllu.

Stærstu framleiðendur bleikju eru Íslandsbleikja, Rifóss, Hólalax og bleikjueldið á Haukamýragili. Gera má ráð fyrir að framleiðsla á bleikju vaxi á næstu árum og geti orðið um 5.000 tonn eftir 2 til 3 ár. Því má gera ráð fyrir að bleikja verði áfram mikilvægasta eldistegund hér á landi.

Þorskeldi byggist hins vegar mest á veiðum á smáþorski sem síðan er alinn áfram í kvíum. Árlegur kvóti til veiða á smáþorski er nú 500 tonn og eru ekki áform um að auka hann. Framleiðsla eldisþorsks hefur verið um 1.500 tonn á síðustu árum. Ekki er gert ráð fyrir að þorskeldið aukist mikið á næstu árum þar sem þróunarstarf er stutt á veg komið. Fyrirtækið Icecod hefur á undanförnum árum stundað kynbætur á eldisþorski og fengið árlega um 25 millj. kr. styrk til verkefnisins. Helstu framleiðendur á eldisþorski eru Gunnvör í Hnífsdal, Þóroddur á Tálknafirði og Álfsfell á Ísafirði. Nefna má aðrar eldistegundir, svo sem lax, lúðu og sandhverfu, en vægi þeirra er tiltölulega lítið. Tilraunarækt með krækling fer nú fram víða og Norðursker í Hrísey og fleiri fyrirtæki hafa náð athyglisverðum árangri þar. Útflutningstekjur fiskeldisafurða eru nú, eins og ég sagði, um 3 milljarðar á ári en gera má ráð fyrir að útflutningstekjurnar muni tvöfaldast á næstu árum, einkum vegna aukinnar bleikjuframleiðslu.

Í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi, hefur þorskeldið ekki gengið upp sem skyldi og hefur verið erfitt að ná þar viðunandi eldisferlum til að þorskeldi yrði arðbært. Það er greinilegt að það þarf að vinna meira grunnþróunarstarf til að svo geti verið. Í þeirri stöðu sem við nú erum í er ekki gert ráð fyrir því að við séum að leggja fleiri tonn af kvóta til þessara eldistilrauna en reynt verður að halda sjó, eins og við segjum, í rannsóknum og grunnrannsóknum á þessu sviði. Þar höfum við sjóði eins og AVS-sjóðinn sem lýtur stjórn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Hann hefur veitt fjármagn til ýmiss konar rannsókna- og þróunarstarfs í þessum efnum en það er alveg ljóst að nú þegar fer að sneyðast um fjármagn þurfum við að forgangsraða í þessum efnum. En ég vek sérstaklega athygli á þeim miklu möguleikum sem við eigum áfram í bleikjueldi. Við erum virkilega á undan öðrum í þeim efnum.