138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

skelrækt.

406. mál
[13:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og tek heils hugar undir að þetta er ný atvinnugrein sem maður bindur miklar vonir við. Það sem er þó mikilvægast í þessu er að menn styðji við atvinnugreinina, eins og hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu, og þá sérstaklega í þeirri þróunarvinnu sem er fram undan, bæði hvað varðar veiðarnar og ræktina og eins í sambandi við markaðsmálin.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að horfa þá líka til framtíðarskipunar, þannig að við förum ekki af stað eins og við höfum oft gert, hvort heldur það er í loðdýrarækt eða einhverju öðru, að við horfum til framtíðar og skipuleggjum þetta með þeim hætti að menn sjái fram yfir næstu eitt, tvö, þrjú árin. Og ég vil nota tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra til að gera það í nánu samstarfi og samvinnu við þá aðila sem eru að byggja þessa grein upp.