138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

skelrækt.

406. mál
[13:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Í fyrsta lagi er mjög gott að frumvarpið skuli vera komið fram varðandi skelræktina. Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í 8. gr. frumvarpsins um heilnæmiskönnun, hvort það sé ekki eðlilegt að þessi grein, líkt og aðrar greinar í sjávarútvegi, því að ég vil meina að þetta sé hluti af sjávarútveginum, búi við sama umhverfi og aðrar. Hafrannsóknastofnun er að rannsaka það sem er í hafinu, þorskinn og allt slíkt, og menn borga gjald, útgerðarmenn og útgerðir, inn í það apparat, en hérna er gert ráð fyrir að leyfishafi láti framkvæma heilnæmiskönnun og beri kostnað af því. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hann telji ekki eðlilegt að þessi grein verði meðhöndluð með sama hætti og aðrar.

Síðan er þetta með lirfuna, mér er kunnugt um að þeir sem standa í þessu eru að reyna að vakta þetta sjálfir með mikilli fyrirhöfn og miklum tilkostnaði hvenær lirfan er, ég orða það bara þannig, upp á sitt besta til að setja niður spottana, svo dæmi sé tekið. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að það komi fjármagn inn í stöðugildi og til verði stöðugildi sem hafi það verkefni að vakta einmitt þetta þannig að hægt sé að bregðast við á réttum tíma, læra, skrá og þróa þessa grein. Það skiptir mestu máli fyrir næstu ár.

Allt bendir til þess að þetta geti orðið mikill vaxtarbroddur í atvinnulífi, ekki síst á landsbyggðinni, og því tek ég undir það að stofnanir líkt og Byggðastofnun eða aðrir sjóðir ríkisins verði að horfa á þetta sérstaklega, af því að þarna er klárlega vaxtarbroddur.

Frú forseti. Þetta er varðandi 8. gr., heilnæmiskönnunina, og einnig varðandi vöktun á lífríkinu (Forseti hringir.) og svo þetta með lirfuna.