138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða.

422. mál
[13:21]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Fyrirspurn hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar er góðra gjalda verð og ég fagna henni. Hún vekur hins vegar upp aðrar spurningar hvað varðar almenna stefnumörkun vegna sauðfjárveikivarna. Það er ljóst að enn er mikil þörf á virkum aðgerðum til að halda aftur af sauðfjársjúkdómum, ekki síst riðuveiki og garnaveiki og útbreiðslu þeirra. Líkt og kom fram hjá hæstv. ráðherra hefur fjármagn til viðhalds á varnarlínum engan veginn verið nægilegt og svo virðist sem nokkuð hafi skort á samráð við bændur og hagsmunasamtök þeirra hvað varðar breytingar á varnarlínum.

Árið 2006 skilaði starfshópur um endurskoðun á vörnum gegn búfjársjúkdómum afar vandaðri skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar kom fram sú skoðun að fækka ætti varnarhögum í landinu. Eftir því var ekki farið og þetta breyttist verulega í meðförum Matvælastofnunar sem hefur með þessi mál að gera og gengið var mun lengra. Það er mín skoðun að hæstv. ráðherra ætti að íhuga að endurskoða þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í varðandi niðurlagningu og viðhald varnarlína. Nú er ekki tíminn til að (Forseti hringir.) slaka á í vörnum gegn búfjársjúkdómum, nóg er nú samt.