138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

varnarlínur sauðfjárvarnarsvæða.

422. mál
[13:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá síðustu ræðumönnum er þetta gríðarlega mikilvægt málefni. Ég er ekki viss um að allir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því hversu mikilvægt það er en það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir auknum fjárheimildum til þess að halda við og endurbyggja þær varnarlínur sem þurfa virkilega á því að halda.

Þetta hólf sem þarna er um að ræða, með þessum líflömbum og með þessum ósýkta stofni, er gríðarlega mikilvægt. Ég sakna þess að við skulum ekki fá skýrari svör — það kemur kannski hjá hæstv. ráðherra nú á eftir — um hvort hann muni beita sér af hörku fyrir því að fá í þetta aukið fé. Við erum að eyða hundruðum milljóna í eitthvert Evrópusambandsklístur og brölt og reynt er að koma landinu inn í slík samtök. Við hljótum að geta séð eftir nokkrum milljónum í að vernda íslenskan landbúnað sem full þörf er á. Við getum ekki staðið og horft á, hæstv. ráðherra, fjármunina renna alla í þennan félagsskap sem þingmenn hér virðast vera einkanlega áhugasamir um, (Forseti hringir.) sérstaklega í Samfylkingunni. Við hljótum að þurfa að vernda íslenskan landbúnað umfram það.