138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

markmið með aflareglu.

488. mál
[13:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt það í þessum ræðustól að þetta bréf til Alþjóðahafrannsóknaráðsins um 20% aflareglu sé eitt af stærstu axarsköftum hæstv. ráðherra. Mjög nálægt kemur umsókn hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar um aðild að Evrópusambandinu.

Það sem liggur fyrir er að við núverandi skilyrði er þessi 20% aflaregla algjörlega út í bláinn. Það er verið að byggja þorskstofninn allt of hratt upp við þessar efnahagslegu aðstæður. Ég hef margsinnis bent á að það er hægt að auka verulega úthlutun í þorskkvóta án þess að ganga að stofninum. Nú liggur fyrir að menn eru að byggja þorskstofninn úr 702 þús. tonnum upp í 762 þús. tonn eftir þessu. Ég spyr bara: Er það réttlætanlegt á þessum tímum?

Í öðru lagi er ekkert hugsað um það sem er verið að gera á hinum endanum. Það er verið að veiða tugi þúsunda af gulldeplu og manni er sagt að þar sé mikið af seiðum og þar fram eftir götunum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að byggja upp þorskstofninn ef það á alltaf að veiða alla fæðuna frá honum?