138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

markmið með aflareglu.

488. mál
[13:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þó svo að bréfið hafi verið vitlaust er Evrópusambandsumsóknin enn þá vitlausari.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hreint út, frú forseti: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að kvótinn, aflaheimildirnar verði auknar? Það hefur verið sýnt fram á það, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á áðan, að þó að við aukum þorskkvótann um 20 þús. tonn eða 30 þús. tonn, þá rúmast það innan þeirra viðmiðunarmarka sem Hafrannsóknastofnunin hefur gefið út varðandi veiðistofninn og hrygningarstofninn.

Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra um að leiðrétta mig ef þetta er rangt hjá mér, því það er hægt og ég hefði talið að hæstv. ráðherra ætti í ljósi efnahagsástandsins og stöðu sjávarútvegsins að beita sér fyrir því að aflaheimildir verði auknar. Hann sendir einfaldlega út annað bréf og segir að þetta rúmist innan þeirra viðmiðana sem þessi ágæta stofnun, (Forseti hringir.) sem er að stjórna veiðum okkar, hefur gefið út.