138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

félagsleg áhrif kreppunnar á börn og unglinga.

212. mál
[13:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi í efnahagslífinu langar mig til að fitja upp á mjög mikilvægu máli sem eru þau áhrif sem bágt efnahagsástand getur haft á börn og unglinga. Mikill fjöldi Íslendinga er atvinnulaus, 15 þús. manns, og á sumum heimilum eru báðir foreldrar án atvinnu. Þetta er auðvitað afskaplega alvarlegt ástand og um það erum við öll sammála.

Ég held að við þessar aðstæður sé mjög mikilvægt að gæta sérstaklega að börnum og unglingum og huga að því sem við getum gert til að fylgjast með þeim og hjálpa þeim.

Þess vegna spyr ég hvort hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hafi beitt sér fyrir því að fylgst sé með félagslegum áhrifum kreppunnar á börn og unglinga. Í þessu sambandi er ég sérstaklega að horfa til þess hvort hæstv. ráðherra sé í samstarfi eða í samtali við t.d. ráðuneyti menntamála og heilbrigðismála um þetta efni og jafnvel dómsmála- og mannréttindaráðuneytið. Þessi málaflokkur varðar mörg ráðuneyti.

Mig langar til að spyrja hvort einhver samhæfð áætlun eða samhæft samtal sé á milli þessara ráðuneyta og gagnvart Reykjavíkurborg eða sveitarfélögunum. Ég veit að í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er svokölluð velferðarvakt til staðar. Það er fróðlegt að heyra hvernig það gengur allt saman fyrir sig.

Það sem skiptir mestu máli fyrir mig og það sem ég er kannski að leita eftir er þetta: Hafa menn séð einhver merki þess að þær efnahagsværingar sem hér hafa verið og þau áhrif sem þær hafa haft á heimili hafi haft áhrif á börn þannig að þeim líði verr í skólanum, félagsleg vandamál hafi aukist eða annað slíkt? Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að vera mjög vel vakandi yfir þessu, vegna þess að ef þetta fer eitthvað úr böndunum þá er erfitt að eiga við það. Við þekkjum þetta frá nágrannalöndunum þar sem börn hafa farið mjög illa út úr efnahagsþrengingum.

Ef maður lítur til unglinganna þá er auðvitað áhyggjuefni ef þeir leiðast út á glapstigu. Brugg virðist vera að aukast, maður hefur líka áhyggjur af því. Spurning mín til hæstv. ráðherra og hugleiðingar eru fyrst og fremst af þeim toga. Er verið að fylgjast með þessu, eru menn farnir að sjá einhver merki og hvernig er best að grípa inn í?

Ég hef engin svör, ég er einungis að spyrjast fyrir um hvort hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sé með hugann við þetta.