138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

félagsleg áhrif kreppunnar á börn og unglinga.

212. mál
[13:47]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og með þeim málefnalega hætti sem hún gerir. Þetta er mál sem við leggjum mikla áherslu á, þ.e. staða barna og ungmenna við þessar erfiðu aðstæður. Reynsla nágrannaríkja okkar segir að það sé mjög mikilvægt að gera það við efnahagslegar þrengingar eins og við göngum nú í gegnum. Við höfum falið velferðarvaktinni að horfa sérstaklega til velferðar barna, allt frá því að hún var sett á fót fyrir rúmu ári. Innan vaktarinnar starfar sérstakur barnahópur sem í eru m.a. sviðsstjóri fræðslumála hjá Reykjavíkurborg, fulltrúar frá Barnaheill, Unicef, Heimili og skóla, forstjóri Barnaverndarstofu og Umboðsmaður barna. Við höfum líka sett á fót vinnuhóp um ungmenni, ungt fólk 15–25 ára, með fulltrúum á vaktinni og fulltrúum frá Fjölsmiðjunni, Ungmennahreyfingu Rauða krossins og Sambandi framhaldsskólanema.

Fulltrúar allra ráðuneyta, sem hv. þingmaður spurði um, eiga aðild að velferðarvaktinni og koma þar að málum. Við héldum sérstakan þemafund um þetta mál í febrúar á vegum velferðarvaktarinnar með 16 aðilum sem allir sinna aðstæðum barna, hver með sínum hætti, og nægir að nefna að í þeim hópi voru landlæknir, yfirlæknir Barna- og unglingageðdeildar, forstjóri Barnaverndarstofu, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, nokkrir félagsmálastjórar og starfsmenn frá Vímulausri æsku, Sjónarhóli og Fjölskyldumiðstöðinni. Á þessum fundi komu nokkrar meginniðurstöður fram. Í fyrsta lagi að standa þurfi vaktina alls staðar í samfélaginu, staða barna sé almennt góð þrátt fyrir alvarlegt ástand, svo sem atvinnuleysi foreldra, og börnum hafi ekki fækkað sem fá skólamáltíðir heldur fjölgað. Bæði ráðuneytið og velferðarvaktin brýndu síðastliðið haust öll sveitarfélögin til þess að tryggja að öllum börnum stæði til boða matur í skólum. Svo virðist sem afleiðingar kreppunnar séu ekki komnar í ljós gagnvart börnum almennt séð, en það getur auðvitað breyst mjög hratt.

Það þarf að efla samvinnu. Það þarf að leggja meiri áherslu á að fólk vinni saman í velferðarþjónustunni, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, og að þriðji geirinn verði betur virkjaður. Álag hefur aukist á starfsfólk, m.a. vegna þess að ekki er ráðið í störf sem losna á þeim stofnunum sem sinna umönnun barna. Foreldrar leita meira til starfsmanna skóla og þar með hafa samskipti foreldra og skóla aukist sem er kostur, en það leiðir til meira álags á starfsfólk.

Starfsfólk í bæði skólum og velferðarþjónustu verður vart við aukinn kvíða, ekki síst á það við um fjölskyldur sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu. Umsóknum um aðstoð vegna fjölskylduvanda, þar á meðal vegna barna, fjölgar hjá öllum stofnunum miðað við undanfarin ár. Það eru fleiri ný mál og málin þyngri. Við þessu er í sjálfu sér að búast þegar kreppir að í efnahagnum. Við erum sérstaklega að horfa til berskjaldaðra fjölskyldna, sem við skilgreinum svo, sem eru börn og fjölskyldur með lítið eða slæmt tengslanet. Þar eru áberandi einstakir hópar, eins og hópar barna innflytjenda og fátækra fjölskyldna. Við höfum helgað umtalsverða fjármuni í verkefni til að bjóða úrræði fyrir þennan hóp, m.a. í sjóði sem við höfum sett á fót vegna Evrópuárs í baráttu gegn fátækt og félagslegri einangrun.

Börn og ungmenni sem hvorki eru í skóla né vinnu eru sérstakt áhyggjuefni. Við höfum ráðist í tröllaukið átak svo að ekki sé meira sagt í að koma ungu atvinnulausu fólki til verka, það hefur tekist gríðarlega vel. Verkefnið Ungt fólk til athafna, sem félags- og tryggingamálaráðuneytið hleypti af stokkunum og fól Vinnumálastofnun að sinna í byrjun þessa árs, hefur náð þeim árangri að búið er að ná í allan þann hóp sem var aðgerðarlaus fyrr í haust og við erum búin að koma 2.700 ungmennum til verka, sem eru annaðhvort komin í varanleg úrræði eða eru á námskeiðum og verður síðan boðin varanleg úrræði í kjölfarið.

Við horfum líka sérstaklega á heimili þar sem báðir foreldrar eru atvinnulausir. Það eru 354 heimili þar sem báðir foreldrar voru atvinnulausir í febrúar síðastliðnum, með alls 467 börn. Við erum að vinna að sérstakri áætlun um það núna hvernig koma megi þessum fjölskyldum til aðstoðar í samvinnu við bæði Vinnumálastofnun og félagsþjónustu sveitarfélaganna. Ég hef ekki tíma til að fara frekar yfir þetta í þessu fyrsta svari, (Forseti hringir.) en eins og ég vonast til að hafa gert grein fyrir hér erum við að vinna á mörgum sviðum að úrlausn á þessum málum. Þetta verður viðvarandi verkefni okkar á næstu missirum.