138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

félagsleg áhrif kreppunnar á börn og unglinga.

212. mál
[13:52]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu sem ég held að við þurfum að viðhafa hér í þingsal jafnvel oftar og meira. Mig langar til að taka örfá atriði eins og það t.d. að ég held að það sé afar mikilvægt að við séum mjög vakandi, og þeir aðilar sem við eigum á þessu sviði, fyrir og meðvituð um hvers kyns kvíðaraskanir sem má oft sjá á börnum. Ég held að það geti haft mikil áhrif á börn að alast upp, jafnvel til lengri tíma, með viðvarandi kvíða.

Mig langar líka til að benda á að það skiptir miklu máli að við fylgjumst mjög vel með aðkomu barna að tómstundastarfi, hvort það hefur minnkað, því að það er mjög auðvelt að mæla þær stærðir.

Það er ánægjulegt að sjá að foreldrar virðast almennt forgangsraða í þágu barna sinna þannig að kannski þurfum við fyrst og fremst að efla foreldrana til að sinna hlutverki sínu. Ég held að í þessum málaflokki sé afar mikilvægt að við séum vel vakandi og framkvæmum þegar við sjáum (Forseti hringir.) að eitthvað er farið að gerast.