138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

heildarkostnaður ríkissjóðs af breytingum á heitum ráðuneyta.

551. mál
[14:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ljúft og skylt að upplýsa hv. þingmann um þetta mál. Að vísu kom það við mig að heyra hvernig hann talaði um mannréttindaþátt nafngiftarinnar á dóms- og mannréttindamálaráðuneytinu. Ég er ákaflega ánægður með það að mannréttindum sé þannig gert sérstaklega hátt undir höfði með því að geta þeirra sérstaklega í heiti þess ráðuneytis á Íslandi sem fer með þau mál. Sama má segja um menningarþáttinn, að hann sé talinn upp með menntamálaráðuneytinu o.s.frv. Sveitarstjórnirnar hafa lengi lagt áherslu á að þess sæist stað með skýrum hætti í Stjórnarráðinu hvar þeirra málum væri skipað. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið var umtalsverð endurskipulagning á stjórnsýslunni, byggð á tillögum ráðgjafarnefndar og ráðgjafa sem var ráðinn sérstaklega í það mál og mælti m.a. með því, í ljósi þess hvernig til tókst í hagstjórn á Íslandi á undanförnum árum, að efnahagsmál væru sameinuð á hendi eins ráðuneytis betur en áður var gert.

Hv. þingmaður spyr um kostnað. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum tekið saman og aflað í samráði við framangreind ráðuneyti nam heildarkostnaður sem gjaldfærður er eða tengdur við þessar breytingar rúmlega 3 millj. kr. Hann sundurliðast þannig að á dóms- og mannréttindaráðuneytið voru þetta 863 þúsund, á mennta- og menningarmálaráðuneytið 704 þúsund, á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið 339 þúsund og á efnahags- og viðskiptaráðuneytið 1.167 þúsund. Kostnaðurinn liggur að mestu í breytingum á merkingum og skiltum bæði innan húss og utan, í prentun á bréfsefni, nafnspjöldum og kveðjukortum, kaup á nýjum stimplum og þó ekki síst í vinnu við heimasíðu og málaskrá og skipurit og aðra slíka hluti. Vinnan var kostnaðarsömust hjá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og það skýrist að stórum hluta af því að þar var unnin ný heimasíða og nýtt skipurit. Lægstur var kostnaðurinn hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, þar var farið einfaldast í þessar breytingar og fyrst og fremst með prentun á nýjum nafnspjöldum og öðru slíku.

Rétt er að leggja áherslu á að þessi kostnaður er að sjálfsögðu fjárfesting í ýmsum verðmætum sem nýtast ráðuneytunum á komandi missirum og árum. Það eru t.d. að sjálfsögðu verðmæti fólgin í nýrri heimasíðu, í lager af nýju bréfsefni sem keypt er inn og dugar næstu missirin og þar fram eftir götunum. Það ber því á engan hátt að líta svo á að þetta sé útlagður kostnaður einn og sér án þess að einhver verðmæti hafi komið á móti. Það er ekki svo. Í flestum tilvikum skilar þetta um leið vörum í hendur viðkomandi ráðuneytis sem nýtast í starfsemi þess á komandi árum. Því má segja að beinn kostnaður sem ekki er fólginn í því að fá varning eða hluti sem gagnast síðan ráðuneytunum í starfsemi sinni sé aðeins lítill hluti af þeim heildarkostnaði sem ég nefndi. Hér er því um afar óveruleg fjárútlát að ræða ef þetta er haft í huga sem ég hef nefnt til skýringar á málinu.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti, ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á stöðu þeirra aðrar en þær sem þegar eru orðnar, þannig að þar er ekki að vænta frekari kostnaðar eða breytinga sem tengjast áframhaldandi endurskipulagningu Stjórnarráðsins, sem ég tel reyndar að sé mjög mikilsvert verkefni. Má af því m.a. draga marga lærdóma að lesa rannsóknarskýrsluna og sjá hversu víða þar er borið niður í því að Stjórnarráð okkar og stofnanir eru fámennar og veikburða og réðu illa við álag og verkefni sem þau fengu í hendur eða áttu að hafa með höndum á umliðnum missirum. Er þar að leita einnar af mörgum skýringum á því hvernig fór.

Það er því enginn vafi í mínum huga að bæði út frá almennum faglegum sjónarmiðum, hagræðingarsjónarmiðum, og til að styrkja og búa stjórnkerfi okkar betur undir viðamikil verkefni eða ófyrirséða hluti sem við kunnum að þurfa að takast á við á komandi árum, er þessi þáttur málsins mikilvægur. Ég tel að kostnaðurinn sem af þessu hlýst, borið saman við þann sparnað, hagræðingu og bættu þjónustu sem á móti geti komið, sé hverfandi.