138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

heildarkostnaður ríkissjóðs af breytingum á heitum ráðuneyta.

551. mál
[14:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við svar mitt að bæta. Ég svaraði því sem ég var spurður um varðandi kostnaðinn og gerði það, held ég, sæmilega skilmerkilega. Ég ætla ekki út í einhvern orðhengilshátt af því tagi sem hv. þingmaður var, að mér fannst, hér með um það að ef maður gleddist yfir því t.d. að mannréttindum væri gert hátt undir höfði með því að nefna þau í heiti ráðuneytis, væri maður þar með að gefa sér að öðrum þáttum sem ekki væru sérstaklega teknir fram í heitum ráðuneyta væri ekki sinnt. Það er auðvitað fjarri öllu lagi.

Eins og ég sagði áður er ekki gert ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum eða þeim plönum sem nú er unnið eftir að neinar breytingar verði á heitum og meginskipulagi mennta- og menningarmálaráðuneytis og efnahags- og viðskiptaráðuneytis þar sem næstum tveir þriðju hlutar þessa kostnaðar liggja. Það er að sjálfsögðu fjárfesting og verðmæti fólgin í hlutum eins og nýrri og uppfærðri heimasíðu, í endurskipulagðri málaskrá í skipuriti sem er síðan þýtt og annað í þeim efnum.

Ég er talsmaður stjórnfestu í þessum efnum og tel að lögfesta eigi meginbreytingar í Stjórnarráðinu og skipan verka innan Stjórnarráðsins, það eigi ekki að hafa þetta eins og var hér á árum áður að þessum verkefnum var hent fram og til baka á grundvelli reglugerðarbreytinga um Stjórnarráðið. Menn voru afar frjálslegir að því á umliðnum áratugum og það réðist, að því er best verður séð þegar maður skoðar stjórnmálasöguna, af því hvað hentaði ráðherrum og flokkum í samningum sín á milli. Ég held að það að vinna skipulega að þessu með langtímamarkmið í huga og horfa á meginviðfangsefnin heildstætt, svo sem eins og velferðarmálin, atvinnumálin, þau mál sem flokkast undir eitthvað sem kalla má innanríkisráðuneyti, sé skynsamleg nálgun. Þar af leiðandi tel ég að (Forseti hringir.) ríkisstjórnin sé í þessum efnum eins og fleirum á hárréttri braut.