138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

veiðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

489. mál
[14:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ég var ekki mikið nær eftir þetta svar og hefði fundist eðlilegt að ráðherra talaði skýrt um hverjar fyrirætlanir hennar eru hvað þetta mál varðar. Það er ljóst að ekki hefur verið haft samráð við þá aðila sem ætti að hafa samráð við, samanber ályktun sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir las hér upp áðan. Það er alveg ljóst að þau rök sem hér voru nefnd fyrir því að stöðva sjálfbærar veiðar eru mjög veik. Eins og t.d. að segja að þarna séu varplönd heiðagæsa. Það er enginn að tala um að fara að veiða á þeim tíma sem varp er. Ég held að ekki hafi hvarflað að nokkrum að gera slíkt. Við megum ekki fara þannig fram í máli sem góð sátt hefur verið um að koma í veg fyrir eitthvað sem hefur gengið prýðilega, eins og sjálfbærar veiðar á rjúpu og gæs.

Hvað varðar hreindýrin þá gilda þar (Forseti hringir.) aðrar reglur sem við getum rætt frekar. En ég hvet hæstv. ráðherra til að tala skýrt og hverfa frá þessu.