138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

jafnvægi í ríkisfjármálum.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að tekjurnar sem menn höfðu reiknað sér skili sér ekki í ríkiskassann og þess vegna sé hærra hlutfall aðlögunarinnar að lenda útgjaldamegin. Það var auðvitað algerlega fyrir séð að hagkerfið þoldi ekki þá miklu skatta sem kynntir voru til sögunnar.

En það vekur athygli mína að ríkisstjórnin virðist vera að vinna að fjárlagagerð fyrir árið 2011 á þeirri forsendu að enn sé svigrúm til að boða nýja skatta. Þá vaknar auðvitað sú spurning: Er verið að horfa þar meira til heimilanna en atvinnulífsins og hvert er þetta svigrúm eiginlega? Reikna menn sér í alvörunni inn einhverjar nýjar tekjur á meðan heimilin eru í jafnvondri stöðu og t.d. skýrsla Seðlabankans birtir okkur og atvinnulífið er enn þá á hnjánum? Er þetta sama ríkisstjórnin sem hefur staðið í vegi fyrir nýjum verkefnum sem geta þó skilað ríkinu nýjum tekjum og komið atvinnulífinu í gang? (Forseti hringir.) Ég held að menn séu á algerlega rangri braut ef þeir telja við þær aðstæður sem eru uppi núna að við fjárlagagerð fyrir árið 2011 sé skynsamlegt að horfa til frekari skattahækkana?