138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[15:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Samkvæmt nýju mati Seðlabankans eru um 22% heimila í landinu í þeirri stöðu að ná ekki endum saman eða eiga innan við 50 þús. kr. afgangs með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Tekið er fram að hlutfallið væri hærra, 27%, ef ekki hefði komið til þessara aðgerða. En hins vegar er þarna ekki tekið með í reikninginn annað en dálitlir peningar sem fara í að borða mat og hafa húsnæði. Það eru sem sagt ýmsir útgjaldaliðir sem í mörgum tilvikum eru óhjákvæmilegir, til að mynda greiðslur af námslánum, sem ríkið ætti að vera í ágætisaðstöðu til að hafa yfirlit yfir, en þessir liðir eru ekki teknir með í reikninginn. Marinó G. Njálsson hjá Hagsmunasamtökum heimilanna hefur sýnt fram á með ágætisrökum að ef þessir liðir væru teknir með, þessir óhjákvæmilegu útgjaldaliðir sem Seðlabankinn sleppir, sé það yfir helmingur heimila sem ekki nær endum saman.

Nú höfum við loksins fengið það staðfest sem framsóknarmenn hafa reynt að halda fram í meira en ár, að skuldir heimilanna voru færðar yfir í nýju bankana með verulegri afskrift, um 45%. Einnig sýna uppgjör bankanna nú að svigrúmið er til staðar til að ráðast í verulega skuldaleiðréttingu. Jafnframt verðum við vitni að því nú að vogunarsjóðir keppast um að kaupa skuldabréf bankanna vegna þess að þeir sjá fyrir sér töluvert meiri hagnað af þeim en áætlað var, væntanlega vegna þess að bankarnir halda áfram að rukka og rukka eins og ekkert hafi í skorist og ætla ekki að láta afskriftina ganga áfram til þeirra sem skulda. Sýnir ekki þetta allt saman okkur að skuldaleiðrétting er óhjákvæmileg?