138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[15:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Sýna ekki einmitt þær staðreyndir sem ég þuldi hér upp að bankarnir hafa svigrúm til að ráðast í leiðréttingu skulda, sanngjarna leiðréttingu skulda, þegar þeir fengu sjálfir 45% afslátt af kröfunum og ætla svo að halda áfram að rukka 100%, þegar uppgjör bankanna sýna hversu verulegan hagnað þeir taka af skuldum heimilanna? Því til viðbótar, er eðlilegt að íslensk heimili eigi að taka á sig allt saman en bandarískir vogunarsjóðir eigi að fá að hagnast á því þegar kröfur á bankana ganga nú kaupum og sölum milli vogunarsjóða á sífellt hækkandi verði? Getur það talist eðlilegt við þær aðstæður sem íslenskt samfélag er í núna?

Svo langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessu máli því að hann hefur hvað eftir annað sent frá sér misvísandi skilaboð, ýmist þess eðlis að það verði að koma til móts við skuldara með því að lækka kröfurnar og núna síðast, að því er virðist, krafa um það (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin taki af öll tvímæli um að ekki verði komið meira til móts við heimilin.