138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skuldir heimilanna og nauðungaruppboð.

[15:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég endurtek að sú tilhögun mála varðandi það hvenær aflétt yrði frystingu á nauðungarsölum var þegar ákveðin. Reyndar hafði sá frestur, ef ég man rétt, verið tvíframlengdur frekar en einu sinni og átti upphaflega að renna út 1. febrúar sl. eða svo. Síðan var ákveðið að lengja í þessum fresti til að búa til lengra tímabil fyrir fólk til að vinna úr sínum málum og nýta sér þar á meðal þau nýju úrræði sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi, en ég held að öllum hafi verið ljóst að þetta fyrirkomulag yrði ekki svona til langrar frambúðar. Mælir hv. þingmaður e.t.v. með því sérstaklega, er það nálgun hans að þessum vandamálum að það eigi bara að frysta málin þannig um ókomin ár? Það verður að búa þessu eitthvert umhverfi í tíma, rúmi og reglum þannig að unnið sé úr hlutunum innan einhverra tilskilinna tímamarka.

Samtímis því hafa réttindi skuldara og manna við m.a. nauðungarsölur verið stóraukin, (Gripið fram í.) t.d. að þeir geti búið áfram í húsnæðinu á meðan þeir leita (Forseti hringir.) nýrra lausna fyrir sig og sína.