138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

orð seðlabankastjóra um innstæðutryggingar.

[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er vinsæll í dag, eins og svo oft í þinginu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í orð sem féllu í viðtali við seðlabankastjóra í Morgunblaðinu 1. apríl. Ég er búinn að fara vel yfir þetta og þetta er alvöruviðtal, þetta er ekkert plat, þetta viðtal við seðlabankastjóra. Hann fjallar m.a. um sparifjáreigendur og tryggingar á innstæðum í bönkum.

Seðlabankastjóri segir, með leyfi forseta:

„Það kann að vera að það þurfi að breyta lögunum þannig að innstæður séu tryggðar upp að ákveðnu hámarki í einu vetfangi en hins vegar þarf að velja réttan tímapunkt til þess.“

Það sem ég er að velta fyrir mér og langar að spyrja hæstv. ráðherra er: Er sá tímapunktur að nálgast að ríkisstjórnin ætlar í einu vetfangi að taka af og afturkalla þá yfirlýsingu sem gefin var út varðandi innstæður í bönkum?

Það leiðir til annarrar spurningar: Er ríkisvaldið þá að hverfa frá ábyrgð á innstæðum?

Síðan er þriðja spurningin, því að væntanlega mun koma að því að tryggingar á innstæðum breytast með einhverjum hætti: Verður gefinn einhver aðlögunartími áður en þetta er ákveðið eða mun þetta gerast með þeim hætti sem seðlabankastjóri lýsir, mun ríkið í einu vetfangi taka af og afturkalla þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar um tryggingar á innstæðum?

Ég held að það sé hollt fyrir okkur að velta þessu fyrir okkur, ekki síst í ljósi þess að við höfum ekki hugmynd um, og höfum ekki fengið nein svör um það, hverjir eiga nú a.m.k. tvo af bönkunum sem er nýbúið að einkavæða. Því hljótum við að vilja fá upplýsingar um það hvort ríkið hyggist gera einhverjar breytingar á ábyrgðum sínum eða því sem það hefur gefið út.