138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Árið 2008 tapaði Íbúðalánasjóður sjö milljörðum. Árið 2009 tapaði Íbúðalánasjóður þremur milljörðum. Eftir því sem hægt er að lesa er tap Íbúðalánasjóðs 2008 vegna áhættufjárfestinga í skuldatryggingu. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra sem heldur utan um kassann: Hvernig í ósköpunum geta slíkar áhættufjárfestingar eins og þær sem Íbúðalánasjóður stundaði rúmast innan fjárfestingarheimilda Íbúðalánasjóðs?

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort gripið hafi verið til ráðstafana og þá hverra. Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er staða Íbúðalánasjóðs í dag í raun og veru? Og er það rétt að ef það yrði u.þ.b. 1% útlánatap miðað við stöðu Íbúðalánasjóðs í dag þýddi það að neikvætt eigið fé sjóðsins yrðu þrír til fjórir milljarðar?