138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort það er alveg sanngjarnt að tala um þessa hluti hjá Íbúðalánasjóði sem áhættufjárfestingar. Ég held að þetta sé frekar spurning um hvort Íbúðalánasjóður þurfi að setja sér einhverjar strangari reglur um hvar hann geymir fé eða vistar það. Þarna var ekki um að ræða áhættufjárfestingar í þeim skilningi að Íbúðalánasjóður væri bara að kaupa og selja hlutabréf eða eitthvað í þeim dúr heldur var þetta meira spurningin um hvar hann reyndi að ávaxta sitt fé og hverjum hann treysti fyrir því. Þar má eftir á að hyggja segja að betur hefði mátt takast til en t.d. að Íbúðalánasjóður geymdi umtalsvert fé í ónefndum fjárfestingabanka sem reyndist ekki vel á sig kominn að innan þegar það mál komst í sviðsljósið.

Þessa hluti þarf að sjálfsögðu að skoða og er rétt og skylt að fara yfir þá. Kannski á almennt séð að fara yfir reglur sem snúa að lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði og öðrum slíkum mikilvægum kjölfestuaðilum, hvaða áhættu þeim (Forseti hringir.) sé lögum samkvæmt heimilt að taka.

Varðandi eiginfjárgrunninn hygg ég að það sé rétt hjá hv. þingmanni að ef það er ekki beinlínis í lögum er það a.m.k. þannig að Íbúðalánasjóður er fjármálafyrirtæki og á að (Forseti hringir.) uppfylla ákveðnar eiginfjárkröfur sem hann á að vera bundinn af.