138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu, sem við svo sem vissum frá fyrri umræðu um sparisjóðina, að það er mikil þverpólitísk sátt um mikilvægi þeirra sem hluta af okkar fjármálakerfi. Það fer ekkert á milli mála að sparisjóðirnir hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki, ekki síst úti á landsbyggðinni, og þess vegna skiptir svo miklu máli fyrir okkur að vel takist til við að endurreisa fjármálakerfið sem sparisjóðirnir eru.

Þegar neyðarlögin voru sett hinn 8. október 2008 var sett inn sérstakt ákvæði sem fól í sér að það mætti koma til liðs við uppbyggingu sparisjóðanna, endurreisn sparisjóðanna, þrátt fyrir að enginn sparisjóðanna hefði þá þegar farið á hliðina. Í lok sama árs voru settar og samþykktar í þáverandi ríkisstjórn reglur um það hvernig standa ætti að því að styðja við bakið á sparisjóðunum. Síðan eru liðin hér um bil eitt og hálft ár og það eina sem við höfum handfast í því máli er að það liggur fyrir að sparisjóðir með u.þ.b. 90% af efnahagsreikningum sparisjóðakerfisins í landinu hafa fallið og eftir standa þá sparisjóðir með u.þ.b. 10% af upphaflegum efnahagsreikningum sparisjóða. Þetta er á vissan hátt sá vandi sem við er að glíma vegna þess að sparisjóðirnir, þeir litlu, hafa ekki getað staðist nema með tiltekinni miðlægri þjónustu og forsendan fyrir þeirri miðlægu þjónustu hefur verið þátttaka og hlutdeild stærri sparisjóðanna. Þess vegna er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það hvernig ríkisvaldið, sem kemur til með að verða mjög ráðandi um framtíð og þróun sparisjóðanna, sjái fyrir sér að sú miðlæga þjónusta haldi áfram. Ég nefni dæmi eins og tölvukerfin, ég nefni markaðshlutann. Ég nefni útvegun erlends fjármagns sem var ekki á færi þessara litlu sparisjóða. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á þessu.

Það þarf að hraða þessari vinnu. Ég veit að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hefur verið unnið sleitulaust að þessum málum upp á síðkastið. Það voru auðvitað mikil vonbrigði að þeir sparisjóðir sem við ræðum um núna féllu á sumardaginn fyrsta, að þeir hafi ekki getað klárað sína fjárhagslegu endurskipulagningu en það breytir ekki því að þetta er staðan og við verðum að vinna út frá henni. Það vekur t.d. athygli að annar þeirra sparisjóða sem féll á sumardaginn fyrsta er endurreistur sem hlutafélag, ekki sem sparisjóður. Er þetta einhver vísbending, hæstv. ráðherra, um að það sé ætlunin að minnka sparisjóðakerfið enn þá frekar? Er ekki ætlunin að það sem eftir stendur af Byr sparisjóði verði hluti af sparisjóðahópnum í framtíðinni? Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á þessu, því að það er mjög hættulegt að mínu mati ef við minnkum sparisjóðakerfið enn meira frá því sem það er í dag.

Mér finnst hafa verið dálítið miklar alhæfingar hér um ástæður fyrir því að sparisjóðakerfið hrundi. Það var ekki bara þannig að allir sparisjóðirnir hafi orðið græðgisvæðingunni að bráð, eins og menn hafa verið að tala um hérna. Auðvitað voru margs konar ástæður sem ollu þessu sem ég hef áður farið yfir í ræðu, m.a. voru sparisjóðirnir í þeirri stöðu að þeir voru litlir, þeir urðu að reyna að verja sína miðlægu þjónustu. Hluti af því var t.d. Sparisjóðabankinn og margir þessara sparisjóða lögðu umtalsverða fjármuni inn í þann banka til að halda honum á lífi til þess að geta sjálfir starfað. Þetta var í raun og veru sú staða sem sparisjóðirnir voru í.

Svo má ekki gleyma því að það hefur orðið hrun á eignaverði. Margir sparisjóðir úti á landsbyggðinni lánuðu t.d. til sjávarútvegsfyrirtækja. Ætli eignamatið í sjávarútvegsfyrirtækjunum hafi ekki lækkað um svona helming frá hruninu? Sama má segja um sparisjóðina sem störfuðu í dreifbýlinu og lánuðu til landbúnaðarins. Það vita allir að t.d. jarðaverð á markaði hefur snarlækkað. Ætli þetta hafi ekki haft einhver áhrif á t.d. efnahagsreikninga þessara sparisjóða?

Margir þessara sparisjóða voru mjög sterkir. Þeir fóru í það að reyna að blása út efnahagsreikning sinn vegna þess að eigið fé þeirra var orðið óþægilega hátt miðað við það sem talið var eðlilegt að menn gætu annars fengið ávöxtun á. Það má síðan segja að í þessari „velgengni þeirra“ hafi fall þeirra á vissan hátt verið falið, vegna þess að þeir fóru út í það að gefa út skuldabréf til að lækka þetta eiginfjárhlutfall og stækka efnahagsreikning sinn.

Virðulegi forseti. Það er ekki tími til þess að fara yfir þessa forsögu. Aðalatriðið er þó að horfa fram á veginn. Það veldur mér vonbrigðum að heyra ekkert frekar frá hæstv. ríkisstjórn um viðbrögð við þeim mikla vanda sem nú blasir við í mörgum byggðarlögum vegna stöðu stofnfjáreigenda. Við vöruðum, mörg hver, við þeirri lagasetningu sem var framkvæmd hér á síðasta ári þar sem grunnurinn var lagður að því að færa niður stofnféð. Að mínu mati standa hér eftir mjög mikil og alvarleg óleyst vandamál. Þá var talað um þetta, þá var sagt að þetta biði síns tíma. Nú hafa menn beðið í heilt ár og ég heyri það á máli bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að í raun og veru erum við í sömu sporum. (Forseti hringir.) Menn hafa ekki fundið neinar lausnir gagnvart þeim þúsundum stofnfjáreigenda — og gleymum því ekki að (Forseti hringir.) stofnfé og hlutafé er sitt hvað — og það er eitt sem hæstv. ríkisstjórn verður að fara að skilja.