138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Allt er þegar þrennt er. Ég held að þetta sé í þriðja sinn sem þetta mál er á dagskrá og umræðu hefur ævinlega verið hætt þegar komið hefur verið að því að forsvarsmaður minni hlutans gæti mælt fyrir minnihlutaáliti. Ég gleðst því yfir að koma hér í pontu og geta klárað það mál. En ég sakna þess, frú forseti, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé ekki hér til að hlusta á mál mitt og annarra þeirra sem munu taka til máls og fer fram á það við frú forseta að hún láti kanna hvort ráðherra sé væntanlegur eða muni koma og verða við umræðuna. Það er margt í þessari umræðu sem þyrfti að ræða við ráðherrann.

(Forseti (RR): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að láta hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason vita af ósk hv. þingmanns.)

Takk fyrir það, frú forseti. Frumvarp þetta, eins og við höfum kannski rætt um nokkrum sinnum áður, er til að festa í sessi bráðabirgðaákvæði sem við ræddum talsvert í sumar um strandveiðar og í því eru nokkur atriði sem eru eðlilegt þróunarferli í því sem menn prófuðu síðasta sumar. Mat meiri hlutans er að þessar veiðar hafi skilað góðum og miklum árangri og séu komnar til að vera og í því eru síðan nokkur atriði sem meiri hlutinn vill ítreka og ráðuneytið með frumvarpi þessu. Til að mynda kemur fram að ekki sé heimilt að veita fiskiskipum leyfi til strandveiða ef þau ekki fullnægja ákveðnum skilyrðum og til að mynda verði frá árinu 2011 óheimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Eins og menn heyra er þetta svolítið flókinn texti og óljós. Hann er mun skýrari í greinargerðinni og af því að hann er svona í frumvarpinu mun hann hugsanlega verða til þess að einhverjir láti á þetta reyna og þyrfti kannski aðeins að fara yfir það.

Í nefndaráliti meiri hlutans eru tvær viðbótarbreytingartillögur. Annars vegar að 6. töluliður 5. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði samhljóða sambærilegum tölulið í bráðabirgðaákvæðinu. Þetta er atriði sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti á í umræðu og við reyndar tókum upp sem minni hluti og meiri hlutinn tók tillit til þeirra ábendinga.

Í öðru lagi er lagt til að við frumvarpið bætist grein til breytingar á 24. gr. fiskveiðistjórnarlaganna á þann veg að Fiskistofu verði heimilt að svipta skip leyfi til strandveiða fyrir brot á lögunum. Meiri hlutinn taldi að slíkt ákvæði sé til og fyrir hendi en leggur áherslu á að þrátt fyrir fullyrðingar ákveðinna hagsmunaaðila um að annað hafi komið fram, hafi sjómenn almennt virt kerfið og að lítið hafi verið um brot. Þetta er að sjálfsögðu umdeilanlegt og þyrfti kannski að kanna aðeins betur.

Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hlutans og það kemur m.a. til af því að málið var tvisvar sinnum tekið út úr nefndinni og í seinna skiptið voru Einar K. Guðfinnsson og Jón Gunnarsson fjarverandi. Þetta er svona af tæknilegum ástæðum og þess vegna mæli ég fyrir álitinu.

Hið yfirlýsta markmið með svokölluðum strandveiðum er að opna aðgengi að fiskveiðum í atvinnuskyni. Er að því stefnt að aðrir, og þar með fleiri, en nú stundi útgerð og fiskveiðar komi að því. Markmiðið er því að nýta ekki þá fjárfestingu betur sem þegar er til staðar í útgerð, t.d. minni báta, heldur að sjá til þess að fleiri geti stundað þessar veiðar.

Hvað sem um strandveiðar má segja að öðru leyti er að minnsta kosti ljóst að þetta fyrirkomulag eykur fastan kostnað í sjávarútvegi í heildinni og er þess vegna ekki ýkja vel til hagræðingar fallið. Enda er það athyglisvert að ekki skuli beitt hagrænum rökum til þess að styðja við þá hugsun sem að baki þessum veiðum liggur. Í samræmi við það hefur ekki verið lagt hagrænt mat á veiðarnar eða reynsluna af þeim. Opinn aðgangur eins og strandveiðar ganga út á það og hafa þess vegna í för með sér að verið er að veiða sama afla og áður en með fleiri bátum.

Ein helsta réttlæting veiðanna hefur líka verið að með þeim hætti verði til aukin umsvif í minni sjávarplássum, af því að þær leiði til fjárfestingar og þar með umsvifa sem ekki yrðu ef þessi afli yrði dreginn að landi með fiskiskipaflotanum sem nú þarf mjög á auknum aflaheimildum að halda. Og mætti því velta fyrir sér hvort ekki væri eðlilegra að auka þann kvóta.

Það má líka benda á hér, og við framsóknarmenn höfum talað um það, að strandveiðar per se séu í sjálfu sér ekki óskynsamleg leið til að auka þetta og styðja við lífið í minni höfnum og sjávarplássum, en það megi líka varast það að þetta eigi kannski frekar að vera sem eins konar frístundaveiðar. Við getum borið það t.d. saman við aðra undirstöðuatvinnugrein, landbúnað, að þá eru margir, til að mynda eldri bændur eða aðrir sem atvinnu hafa af öðru, sem stunda sauðfjárbúskap sem hobbí og er ekkert að því. En það sem kannski eykur vandræðin í þessari hugmynd að strandveiðum er að hér er verið að opna leið fyrir nýja atvinnugrein, sem sagt atvinnuveiðar, og það er í raun og veru verið að taka af þeim sem núna stunda þessa atvinnugrein og færa til nýrra aðila. Þetta mun til að mynda þýða það að fyrirtæki sem starfa núna og eru með fullt af fólki í vinnu í ýmsum höfnum og sjávarplássum landsins þurfa ýmist að leggja skipum og minnka vinnu um tvær til þrjár vikur og sú vinna færist yfir á aðra. Þetta er því ekki aukning út af fyrir sig og mætti þess vegna velta fyrir sér hvort ekki væri eðlilegra að auka kvótann um þau 6 þús. tonn sem ætlað er að setja í þetta og ekki bara á þessu ári, eins og hæstv. ráðherra hyggst gera, að auka kvótann um 6 þús. tonn og það þrátt fyrir 20% aflaregluna og ráðgjöf Hafró, heldur mætti líka velta fyrir sér að slíkt verði gert um lengri framtíð, að auka kvótann sem þessu næmi og það sé þar af leiðandi ekki verið að taka hann frá þeim sem eru í atvinnugreininni.

Þegar þessi hugmynd var fyrst kynnt var út frá því gengið að strandveiðar kæmu í stað byggðakvóta. Því var mótmælt harðlega. Niðurstaða stjórnvalda var þá að stíga það skref einvörðungu að hálfu til baka. Byggðakvótinn var skorinn niður um helming, sem olli miklum vanda í ýmsum sjávarplássum sem höfðu reitt sig á óbreytta úthlutun hans. Á þetta benti minni hlutinn og lagði á það áherslu í umræðu um málið (34. mál á 137. löggjafarþingi). Því miður sátu stjórnvöld við sinn keip og neituðu að hlusta á viðvörunarorðin.

Nú, einu ári síðar, hafa stjórnvöld hins vegar snúið við blaðinu og þar með viðurkennt að það fyrirkomulag sem gilti í fyrra hafi verið rangt og ósanngjarnt. Horfið er frá því að skerða byggðakvótann til þess að halda áfram strandveiðum. Þess í stað er ætlunin að auka veiðiheimildir í þeim fisktegundum sem strandveiðiflotinn mun veiða um 6 þús. tonn. Ætla má að um 5 þús. tonn verði þorskur. Má því segja að með strandveiðilögunum verði þorskkvóti aukinn um rúmlega 3–4 % og verði sá aukni kvóti veiddur á handfæri að sumarlagi. Og eins og ég sagði áðan er verið að auka kvóta þessa árs sem þessu nemur þrátt fyrir ráðgjöf Hafró og yfirlýsingar til Alþjóðafiskveiðiráðsins

Minni hlutinn gagnrýndi einnig þá svæðaskiptingu sem gilti um veiðarnar í fyrra. Á þá gagnrýni var ekki hlustað þá en nú viðurkenna stjórnvöld réttmæti hennar. Horfið hefur verið frá þeirri svæðaskiptingu sem þá gilti.

Gallinn er hins vegar sá að enginn veit hvaða hugmyndir eru uppi af hálfu stjórnvalda um hvernig svæðaskiptingunni verður háttað. Frumvarpið felur í sér galopna heimild ráðherrans til þess að ákvarða svæðaskiptinguna. Og er þetta satt best að segja ekki í fyrsta skipti sem aukið ráðherraræði kemur fram í frumvörpum sem koma frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á þessu kjörtímabili. Ekki er stafkrók að finna um hvað eigi að liggja til grundvallar svæðaskiptingunni í framtíðinni. Ekki er vitað hversu mörg svæðin verða eða hvort yfirleitt verður um svæðaskiptingu að ræða. Engar hugmyndir hafa heldur verið kynntar um hvernig ráðstafa eigi þeim 6 þús. tonnum eftir svæðum, né hvað þar eigi að leggja til grundvallar. Þar til annað verður ákvarðað hefur því ráðherra þessi mál algjörlega í hendi sér. Einhvern tíma hefði þetta verið kallað gerræðislegt vald

Þetta er í sjálfu sér í samræmi við önnur þau frumvörp sem flutt hafa verið um sjávarútvegsmál af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þar er reglan sú að galopna aðskiljanlegar heimildir til ráðherrans án þess að gert sé ráð fyrir neinum skorðum þar á. Má það teljast lítilþægni í meira lagi að meiri hluti Alþingis vilji ganga þannig frá málum að ráðherra verði falið lítt skilgreint vald til þess að stjórna fiskveiðum í landinu. Slíkt framsal í lagasetningu í þýðingarmiklum málaflokki er dæmi um vonda lagasetningu og þróun sem eindregið ber að vara við. Og er nú rétt að benda á, þó að þetta minnihlutaálit hafi verið samið áður en skýrsla rannsóknarnefndar kom fram, að margoft er í þeirri skýrslu talað um að það sé nauðsynlegt að lög séu skýr og afmörkuð og að heimildir séu ekki til ráðherra eða einstakra embættismanna um túlkun þeirra heldur komi fram í lagatextanum hvað löggjafarvaldið hafi í raun og veru viljað og með hvaða hætti það vill að mál gangi fram.

Í þessu sambandi og í sambandi við svæðin er rétt að ítreka — ég sakna þess að ráðherra sé ekki kominn í salinn.

(Forseti (RR): Forseti upplýsir hv. þingmann um það að hæstv. ráðherra er á leiðinni.)

Þá hinkra ég kannski aðeins með að taka þessi mál til umfjöllunar í ræðu minni þar til hann kemur hér inn — sé ég nú hæstv. ráðherra ganga í salinn og get ég þá haldið áfram.

Í sambandi við svæðisskiptingar og nauðsyn þess höfum við í minni hlutanum verið að velta því fyrir okkur, og fer ég fram á það í ræðu minni að málinu verði vísað til 3. umr. í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til umfjöllunar til að heyra hvert er álit og hver stefna hæstv. ráðherra og ráðuneytisins er, til að mynda hvort það komi til greina að þetta sé eitt veiðisvæði en það ekki sett í hendur ráðherra hversu mörg þau verða, eitt eða ótal mörg. Einnig finnst mér nauðsynlegt að það komi fram hér og það væri áhugavert að heyra álit ráðherrans á því hvernig skiptingin á milli mánaða eigi að vera, hvort hún eigi að vera jöfn eða með hvaða öðrum hætti hún ætti að vera og ef hún á að vera einhvern veginn öðruvísi en jöfn hvaða mál liggi þar til grundvallar.

Einnig mætti velta fyrir sér — til að reyna að tryggja það að sá sívaxandi fjöldi sem var áætlað að væri um 300 bátar í fyrrasumar en reyndist verða 545, ef ég man rétt, og verður jafnvel um 700 á þessu ári, veiði ekki upp áætlað magn hvers mánaðar á nokkrum dögum — hvort það komi til greina til að mynda að fjölga banndögunum um einn og taka sunnudaginn þar inn í, þannig að ekki verði veitt á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Allt þetta er opið í frumvarpinu og það væri mjög nauðsynlegt að fá að vita hvað til standi hjá ráðuneytinu og hæstv. ráðherra því að í meirihlutaálitinu kemur þetta ekki fram.

Sú aðferð við stjórn fiskveiða sem verið er að innleiða með strandveiðunum mun strax framkalla margs konar vanda. Það sem blasir auðvitað við er að smám saman mun þeim bátum fjölga sem vilja stunda þessar veiðar, eins og ég kom inn á áðan. Þarna er um að ræða opinn aðgang, sem allir sem þess eiga kost hljóta að nýta sér. Því má ætla að bátunum muni enn fjölga frá því sem var í fyrra, eins og ég nefndi áðan. Alls fengu þá 595 bátar veiðileyfi en 554 komu með afla að landi.

Nú stefnir í það að fjölda báta verði lagt á næstunni vegna verkefnaskorts, kvótinn búinn og er víðast hvar að ganga til þurrðar. Ganga má út frá því sem gefnu að þeir bátar sem á annað borð geta með hægu móti stundað handfæraveiðar fari því til strandveiðanna. Og það höfum við jú heyrt, þingmenn, hvaðanæva af landinu. Því má ætla að bátunum sem sækja í þær aflaheimildir sem sérmerktar eru strandveiðiflotanum fjölgi, hugsanlega að miklum mun. Því er alveg óvíst hvernig þessar aflaheimildir munu nýtast. Minna má á að í fyrra kláruðust veiðiheimildirnar á fáeinum dögum sem ætlaðar voru mánaðarlega til strandveiða á veiðisvæði A, enda var um þriðjungur bátanna sem höfðu leyfi til strandveiða gerður út á því svæði.

Því miður er þetta frumvarp sama marki brennt og mörg önnur sem lögð hafa verið fyrir Alþingi. Ekki er búið að hugsa málin til enda, lítt er hugað að því að skoða málin í heild og stór og mikil álitamál afgreidd með því að veita ráðherra óskilgreint galopið vald til þess að fara með að vild. Þetta er auðvitað ekki boðleg aðferð og er síst til þess fallin að auka traust í mikilvægri atvinnugrein eða stuðla að framþróun í sjávarútveginum. Það er, eins og ég sagði áðan, því óhjákvæmilegt að málið komi að nýju til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þar sem þess verði að minnsta kosti freistað að setja í fastara form þær reglur sem um veiðarnar eiga að gilda og upplýsa um hvernig ætlunin er að standa að málum.

Í innganginum og eins sem rök fyrir því að festa þessar veiðar í sessi hefur meiri hlutinn haldið því fram að úttekt sem gerð var í fyrrasumar á veiðunum hafi skilað þeim árangri og ávinningi að þær væru mjög ábatasamar og hefðu gengið vel, aflinn hefði verið ágætur að gæðum og ekki lakari en menn óttuðust o.s.frv. Ég nefndi það við 1. umr. eða fór eiginlega fram á að hæstv. ráðherra mundi hlutast til um að fenginn yrði hlutlaus aðili sem gerði úttekt á hagkvæmni strandveiða, bæði með tilliti til einstakra útgerða og fiskvinnslna sem og heildarinnar, en einnig á samfélagslega þætti sem snertu bæði atvinnu fólks og heildartekjur byggðarlaga sem og einnig markaðslega þætti. Þetta væri mjög áhugavert áður en lengra er haldið á þeirri braut að festa slíkt kerfi í sessi sem hér er verið að gera.

Einnig væri mjög áhugavert og ég held nauðsynlegt í ljósi sögunnar að hæstv. ráðherra kæmi hér upp og upplýsti okkur og gæfi þau skilaboð nokkuð skýrt út til framtíðarinnar hvort sú þróun sem við höfum horft á frá bráðabirgðaveiðunum í fyrra þar sem veidd voru rúmlega 4 þús. tonn og núna er talað um 6 þús., verði áfram, hvort það eigi síðan að veiða 8.500 tonn á næsta ári og síðan 12 þúsund og bátunum fjölgi sífellt. Eða er ráðherra tilbúinn til að koma hér upp og lýsa því yfir að það verði ákveðið hlutfall, fast hlutfall og muni aldrei verða nein aukning á því? Öll þessi álitamál eru enn opin í þessu ágæta frumvarpi, sem er fullt af þessum göllum, og þess vegna er nauðsynlegt að við fjöllum betur og meira um þetta nema hæstv. ráðherra sé hreinlega tilbúinn að upplýsa okkur um það á þinginu og svara öllum þeim spurningum sem við höfum verið að varpa fram í umræðunni, bæði við 1. umr. og eins í nefndinni, en höfum ekki fengið svör við. Læt ég máli mínu lokið hér.