138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera við þessa umræðu, sem ég tel svo sem sjálfsagt, en þakka honum fyrir að hafa brugðist vel við hér áðan. Ég ætla að byrja á að fara yfir nokkur atriði sem hafa komið fram í þeim umræðum sem hafa verið hér áður og m.a. nokkur atriði sem komu fram í ræðum hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar og hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi er það vitanlega þannig að þegar fært er frá einum hópi til annars er í raun verið að búa til nýjar atvinnuveiðar. Það eru teknar heimildir sem voru veiddar með öðrum hætti og stóð jafnvel til að veiða og setja í annað. Það er verið að búa til nýja atvinnugrein úr þeirri takmörkuðu auðlind sem margir hafa áhuga á að ræða. Hæstv. ráðherra svaraði ekki áðan þeirri spurningu sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson beindi til hans.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra beint þessarar spurningar:

Er það misskilningur, hæstv. ráðherra, hjá okkur sem höfum sýnt þessu máli áhuga að með því að úthluta þessum 6.000 tonnum með þessum hætti áður en restinni er úthlutað séu tekin atvinnuréttindi í raun frá einum hópi og færð öðrum? Er ekki verið að úthluta með ákveðnum hætti áður en farið er að úthluta restinni og þannig minnka það sem var til ráðstöfunar? Ef svo er ekki þarf hæstv. ráðherra að upplýsa okkur hér um að hann sé búinn að taka ákvörðun um að bæta við aflaheimildir, þ.e. að fara ekki að þeirri ráðgjöf sem oft hefur verið nefnd.

Ef þessi breyting er ekki yfirlýsing um nýjar atvinnuveiðar hefði maður haldið að það væri eðlilegt að nota það svigrúm til að auka aflaheimildir til að bæta einnig í hinn pottinn. Ég hef skilið þetta þannig að hæstv. ráðherra sé að taka 6.000 tonn af stabbanum sem er til úthlutunar, úthluta honum fyrst í þetta kerfi og svo restinni eftir því sem við höfum gert hingað til.

Það er að sjálfsögðu bara ákvörðun ráðherra og þeirra sem sitja við stjórnvölinn á hverjum tíma ef það er vilji til að breyta þessu. Þetta er eitt af því, frú forseti, sem hefur farið fyrir brjóstið á þeim sem hér stendur, að meðan við vinnum að því af heilindum að ná einhvers konar sátt um framtíðarstefnu í sjávarútveginum sé komið inn í kerfið bakdyramegin.

Það kom líka fram hjá flutningsmanni minnihlutaálitsins að fleiri munu veiða og þar af leiðandi verður minna hagræði. Þessi hagrænu áhrif hafa ekki verið metin og skoðuð og því er mikilvægt að það verði gert.

Síðan hangir vitanlega á þessu stórt mál sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar, margir nýir aðilar eru vitanlega sendir af stað til veiða en aðrir í hinu hefðbundna kerfi eru að binda við bryggju bátana sína sem passa ekki inn í þetta kerfi. Þeir sækja ekki fiskinn og þar af leiðandi dregst vitanlega saman atvinna þeirra sem eru á þeim bátum og þeirra sem vinna fiskinn.

Síðan má velta fyrir sér hvernig þróunin verður varðandi þetta strandveiðikerfi. Miklu fleiri fóru af stað í það en menn áætluðu. Það má búast við talsverðri aukningu í ár líka. Mikil fjárfesting fer af stað og það er eðlilegt að þeir aðilar sem fara af stað vilji fá fjárfestingu sína til baka, það er ekki nema þeir séu með þeim mun bólgnari veski sem þá munar ekkert um að leggja af stað og fara á þessar veiðar. Því miður er það náttúrlega einn af stóru göllunum frá síðasta ári, og er einnig í ár, að menn geta farið af stað sem hafa selt sig út úr hinu fiskveiðikerfinu og eru með fulla vasa fjár. Ég er algjörlega ósammála því að það sé eðlilegt að þeir geti það.

Hins vegar verður að segjast eins og er að í sjálfu sér er góð sú hugsun sem ég er í það minnsta að reyna að átta mig á og festa fingur á að búi að baki þessu frumvarpi. Ef ég hef komist til botns í því er hugsunin sú að þeir sem eiga tæki og tól til að sækja fiskinn geti róið til fiskjar þó að þeir eigi lítinn aðgang að aflaheimildum í dag, geti kannski ekki keypt sér aflaheimildir og geti ekki leigt sér. Það er í sjálfu sér mjög falleg hugsun. Ef það á að vera framtíðarsýnin verða menn einfaldlega að koma fram með hreinum og beinum hætti og segja að við ætlum að uppfylla óskir og þarfir þessa hóps og gera það með því að taka ákveðinn hluta af aflaheimildunum og úthluta honum til þessara aðila eftir ákveðnum reglum. Manni hefði fundist að hæstv. ráðherra hefði vitanlega átt að bæta við kvótann, bæta við þær aflaheimildir sem eru til ráðstöfunar, og það er ekkert um seinan. Við höfum séð það og vitum af gögnum Hafrannsóknastofnunar að það er svigrúm innan þeirra upplýsinga sem þeir láta okkur hafa til að auka kvótann án þess að það komi niður á veiðistofni eða hrygningarstofni. Þess vegna er óskiljanlegt að sú leið hafi ekki verið farin.

Ég reyndi að setja niður kosti og galla við þá aðferðafræði sem hæstv. ráðherra kemur hér með til okkar, skráði þá niður og hvað þyrfti að bæta til að reyna að átta mig á þessu af fullri sanngirni. Ég er búinn að fara yfir nokkur atriði sem ég tel mjög mikilvæg og móti þá skoðun sem sá er hér stendur hefur á þessu máli öllu saman, fyrir utan aðferðafræðina, vinnubrögðin, hvernig þetta kemur inn. Það er verið að opna fyrir aðgang fleiri aðila inn í kerfið. Það þarf ekki að vera slæmt og þarf ekki endilega að hafa víðtæk áhrif ef vel er að verki staðið. Mér finnst það ekki hafa verið gert, frú forseti. Mér finnst ekki hafa verið staðið rétt að þessu máli. Það er ekki rétt að taka atvinnu af einum og færa yfir til annars á sama tíma og það er verið að reyna að selja okkur þá hugmynd að menn ætli að ná sátt og friði um fiskveiðistjórnarkerfið til langs tíma.

Síðan er það úthlutunaraðferðin með þessi 6 þús. tonn sem ég nefndi áðan. Þeir sem hafa selt sig út geta enn þá komið inn ef ég man frumvarpið rétt. Það var reyndar tekið fyrir það á næsta fiskveiðiári en að mínu viti er a.m.k. óeðlilegt að svo sé. Það verður aukin óhagkvæmni eftir því sem fleiri fjárfestar fara af stað og veiða. Það verða dýrir bátar uppi á landi og í sumum bæjarfélögum er talað um garðskraut í sveitarfélögunum þar sem allir garðar fylltust skyndilega af bátum þegar búið var að veiða þessa fáu daga.

Síðan er óneitanlega svolítið sérstakt að eftir að búið var að berjast fyrir því í langan tíma að koma öllum aðilunum inn í eitt kerfi eru menn í rauninni að búa til nýtt kerfi. Er það hugsanlega komið frá þeim sömu og börðust fyrir því að komast inn í hitt kerfið þegar það þótti gott. Af hverju ætli það hafi verið? Ætli það hafi verið vegna þess að menn sáu þar einhverja fjármuni eða var það spurning um atvinnuöryggi? Þetta er eitt af því sem við eigum að velta fyrir okkur.

Ég er sammála þeim sem hafa gagnrýnt svæðaskiptinguna. Við þekkjum hvernig menn munu bregðast við henni. Kennitölur þessara fyrirtækja verða fluttar þangað sem mest er að hafa. Það var gert í fyrrasumar. Það má líka spyrja sig af hverju þeir sem ekki flytja og búa á svæði sem telst síðra eða er jafnvel vonlítið um að fá góðan fisk eiga ekki að hafa rétt til að sækja frá lögheimili sínu eða sínum stað í þennan pott. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða svæðaskiptinguna mjög vandlega áður en hann kveður upp sinn endanlega dóm sem er vitanlega verið að færa honum hér með frumvarpinu eins og það lítur út.

Miðað við þetta frumvarp á að úthluta tilteknum aðilum aflaheimildum en aðrir þurfa að kaupa þær, kannski bátar og litlir útgerðaraðilar sem eru með skip sem falla ekki beint inn í þetta kerfi, rétt fyrir utan viðmiðin, eitthvað slíkt. Þeir þurfa áfram að kaupa eða leigja til sín aflaheimildir, eru kannski að keppa við báta sem eru ekki síður verkfærir til að sækja sjóinn á en þeirra skip.

Það hefur komið í ljós, a.m.k. var það athugun sem hæstv. ráðherra vitnaði hér í, að lítill hluti af aflanum er unninn í höfninni þar sem hann kemur að landi. Þar af leiðandi virðist hafa orðið minni atvinna í kringum þetta á þeim stöðum en áætlað var. Hins vegar kom vitanlega, eins og títt hefur verið rætt hér, líf í hafnirnar, að sjálfsögðu er komið líf í hafnirnar. Að sjálfsögðu eru þeir glaðir sem fóru af stað í þessu og fóru á sjóinn. Það er náttúrlega mjög gott.

Einn kosturinn við þá hugsun sem þarna er að baki getur verið sá að nýta betur fjárfestingu sem fyrir er. Fyrir þá aðila sem áttu báta eða skip, voru kannski á grásleppu og áttu litlar aðrar aflaheimildir er að sjálfsögðu gott að geta róið og skapað sér meiri tekjur. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera athugasemdir við að reynt sé að koma til móts við þessa aðila með einhverjum hætti. Ég held að menn hafi misst sjónar af því í þessu frumvarpi ef það var hugsunin.

Það er verið að tala um frelsi til að sækja sjóinn en þetta er vitanlega alvöruatvinnugrein eins og svo margar aðrar atvinnugreinar sem við erum með. Hér var t.d. nefndur búskapur, landbúnaður. Ef þann sem hér stendur langar að búa með 30 eða 50 eða 100 kindur, á það að vera eðlilegt að geta gert það? Eiga allir að geta gert það sem það vilja? Ég er kannski vanhæfur í þessu máli því að afi minn var einn af þeim sem síðastur var með sauðfé inni í miðjum bæ, á Sauðárkróki, þannig að þetta slær aðeins nær manni. En þetta er sú spurning sem maður veltir fyrir sér. Er þetta það sem koma skal í atvinnugreinum og það sem hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra boðar, að það sem kallað er frístunda-eitthvað muni ráða för?

Annað sem getur verið jákvætt er að sjálfsögðu að þegar fleiri fara af stað verða meiri umsvif í kringum það. Það eru væntanlega fleiri sem t.d. þurfa á þjónustu vélaverkstæðanna að halda, kaupa kost og eitthvað slíkt, það eru fleiri sem kaupa þjónustu í þessum byggðarlögum, það er alveg ljóst. Á sama tíma er náttúrlega dregið úr þjónustukaupum hjá þeim sem annars hefðu verið að veiða þar. Það er ekki alveg sjálfgefið að þetta sé bara viðbót við umhverfið, það getur hins vegar verið það svo maður sé sanngjarn.

Það hefur verið nefnt líka að það sé minni mengun af því að sækja fiskinn á minni bátum en togurum. Það getur verið það upp að ákveðnu marki en þegar við erum búin að senda hundruð eða þúsundir báta á flot og af stað er væntanlega einhvers staðar þessi lína rofin.

Það er mjög mikilvægt, frú forseti, að við ræðum þetta mál af yfirvegun. Ég held að við efasemdarmenn um þetta kerfi eða þá aðferð sem er verið að beita hér höfum reynt að gera það og opna augu hæstv. ráðherra fyrir því að það séu ákveðnir gallar á málinu eins og það er fram sett þrátt fyrir að maður ímyndi sér að hugsunin sé góð.

Það hefur komið fram að kerfið sé komið til að vera. Sé svo er mikilvægt að sníða það þannig að hugsunin sem býr einhvers staðar þar að baki komi fram. Ég vek athygli á því, og vona að ráðherra komi inn á það á eftir, að samkvæmt þessu virðist hugsunin vera að færa atvinnuréttindi frá einum hópi til annars. Þar erum við ekki að tala um stórútgerðir eða þá sem hafa hvað harðast verið gagnrýndir í þessum útgerðarbransa. Við erum að tala um fiskverkafólkið í frystihúsunum og sjómennina á skipunum sem eru að veiða og vinna þennan fisk. Þetta er flókið og snúið mál.

Hæstv. ráðherra hefði átt að beita sér fyrir því að aflaheimildir yrðu auknar. Hann hefði átt að reyna að ná sátt við þá sem hafa áhyggjur af þessari grein á þingi og í nefndum Alþingis um að af þessari aukningu sem ráðherra mundi beita sér fyrir færi ákveðið hlutfall til þessara veiða þannig að þeir sem svo sannarlega sækja þetta til atvinnu, til þess að skapa sér tekjur, njóti góðs af því.