138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra lesi ræðuna sem ég flutti áðan því að ég held að hann hafi ekki hlustað á hana. Ég viðraði það hvernig hægt væri að ná fram þeirri hugsun sem ég held a.m.k. að sé á bak við frumvarpið með öðrum hætti en hér er lagt til.

Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem ég beindi til hans. Hæstv. ráðherra upplýsti hér að 6 þús. tonnum hefði verið bætt við til að koma þessum lögum í gegn til að þetta geti gengið upp. Mun hann beita sér fyrir því að hið sama verði gert á næsta fiskveiðiári eða verða þessi 6 þús. tonn tekin af heildaraflanum á næsta fiskveiðiári? Ætlar ráðherra að beita sér fyrir því? Það er væntanlega mjög einfalt fyrir ráðherrann að svara þessu því að hann hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því hvernig hann ætlar að fara inn í næsta fiskveiðiár líka.

Hin spurningin er svona: Ef hægt er að bæta við 6 þús. tonnum á þessu ári í þessa deild í ráðuneytinu, er þá ekki hægt að bæta við öðrum 6 þús. tonnum inn í kerfið sem við erum að nota í dag þar sem menn kalla eftir því? Það er verið að binda bátana við bryggju víða um land því að aflaheimildirnar eru búnar. Hvers vegna getur ráðherra tekið 6 þús. tonn, sett inn í þetta verkefni sitt en hunsað algjörlega hitt þegar búið er að sýna fram á að þetta rúmast innan þeirra viðmiða sem Hafrannsóknastofnun hefur?

Nú þýðir ekkert að vísa til einhvers bréfs sem sent var til útlanda.