138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Langvinnar deilur hafa staðið um stjórnkerfi fiskveiða. Menn hafa ekki heldur verið á eitt sáttir um þau vísindi sem úthlutun aflaheimilda byggir á. Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem hefur varið það kerfi mjög lengi og öðrum flokkum sterkar og dyggar, enda skeggið skylt hökunni.

Ég ætla ekki að blanda mér í þær efnislegu umræður sem eru um efni þessa frumvarps en ég tók eftir því að hv. þingmaður þrítók í ræðu sinni að hann teldi að það ætti að auka aflaheimildir, það ætti að auka heildarkvóta. Hv. þingmaður beindi þeirri áskorun til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra a.m.k. tveimur sinnum í ræðum sínum áðan. Mig langar að spyrja hv. þingmann hversu mikið hann telji að það eigi að auka aflaheimildir og á hvaða grundvelli hann flytji þá skoðun. Mér er til efs að hann hafi vísindaleg rök fyrir því eins og þau eru fram sett af Hafrannsóknastofnun. Ég geri mér hins vegar mætavel grein fyrir því að það þarf að ná ákveðinni sátt á millum reynslu sjómanna og reynslu vísindamanna. Ég hef á seinni árum heldur talað fyrir því. Við heyrum sjómenn oft tala um að það sé gulur og grár sjór af þorski á tímum sem ekki er hægt að veiða vegna þess að menn eru komnir út fyrir sínar leyfilegu aflaheimildir, en ég vildi gjarna fá svör við því hjá hv. þingmanni hversu mikið hann telji mega auka aflaheimildir, í hvaða tegundum og á grundvelli hvaða staðreynda eða raka vill hann taka þá ákvörðun.