138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn juku aflaheimildir í skötusel umfram vísindalegu rökin, það er alveg ljóst, 80% ef ég man rétt. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er að boða, ef ég skil hann rétt, 6 þús. tonna aukningu á aflaheimildum umfram það sem er ráðlegt. Ég hvika ekki frá því, virðulegi forseti og hæstv. ráðherra, að í þeim gögnum sem ég minntist á áðan, skýrslu Hafrannsóknastofnunar, er þetta svigrúm. Það er hins vegar hárrétt sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra að það mun að sjálfsögðu hægja á uppbyggingu stofnsins, það er alveg ljóst. En hvenær eigum við að taka þá ákvörðun, hvenær eigum við að nota þessa auðlind okkar ef ekki núna þó að við þurfum aðeins að hægja á uppbyggingunni? Okkur sárvantar gjaldeyri, okkur sárvantar að halda fólkinu í vinnu, það er verið að binda og í sumum tilfellum búið að binda bátana við bryggju. Það er verið að senda fólk heim. Að sjálfsögðu eigum við að gera það núna.

Ég get alveg fallist á þau rök að menn verði að fara mjög varlega í þetta, að sjálfsögðu. Eitt af því sem hér hefur verið rætt og verður að sjálfsögðu að komast á koppinn er að draga að veiðiráðgjöfinni líka þá aðila sem eru nánast á hverjum einasta degi úti á sjó að veiða fiskinn. Það þarf líka að taka meira tillit til þeirra upplýsinga sem eru í skipunum, hjá útgerðunum, inni í fiskvinnsluhúsunum, um fiskinn, um stærðina, þyngdina og allt þetta sem mun fara þarna í gegn.

Varðandi það andsvar sem hæstv. ráðherra kom hér upp í held ég að það sé alveg ljóst að hægt er að auka aflaheimildirnar. Ég sakna þess, frú forseti, ef hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ætlar ekki að svara þeim spurningum sem ég beindi til hans áðan. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi upp fyrst hann er í húsinu og svari þessum spurningum, (Forseti hringir.) þótt ekki nema í ræðu. Ég sé að hæstv. ráðherra er í húsinu en er ekki að hlusta (Forseti hringir.) þannig að ef einhver gæti hnippt í hæstv. ráðherra og flutt honum mótmæli mín væri það gott.