138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ræðuna. Hann finnur margt jákvætt í þessu þó að ekkert sé fullkomið.

Varðandi frumvarpið sem lýtur að greiðslu til minni hafna, sem er reyndar sjálfstætt frumvarp en tengist þó strandveiðunum, þá er af minni hálfu ekkert skilyrði að þau fylgist að. Ef Alþingi vill afgreiða það mál líka er mjög eðlilegt að þau fylgist að í afgreiðslunni og komi til framkvæmda saman. Að sjálfsögðu er í höndum Alþingis að afgreiða þetta og mínar vonir standa til þess um hvoru tveggja.

Eins og hv. þingmaður kom inn á þegar við tölum um hagræna kosti og svo nefni ég í hinu orðinu samfélagslega kosti — fyrir mér eru þetta þættir sem eiga að fara saman og ber að horfa til. Í skýrslu sem unnin var af Háskólasetri Vestfjarða varðandi strandveiðarnar var einmitt bent á að tekið væri tillit til beggja þessara atriða. Sumir leggja meiri áherslu á annan þáttinn en aðrir hinn í þessum efnum og er það gert. Í þessari skýrslu frá Háskólasetri Vestfjarða um strandveiðarnar var bent á að svæðaskiptingin væri mikilvæg. Ef það reynist einhvern tíma eiga að vera með öðrum hætti er Alþingis að setja um það lög. Mat skýrsluhöfunda var þó að rétt væri að svæðisskipta.