138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér varð á að rukka hæstv. ráðherra um skattafrumvarpið og hefði betur látið það ógert því að illt er að egna óbilgjarnan í þeim efnum og kannski ástæðulaust að hvetja hæstv. ráðherra til að muna eftir skattafrumvarpinu sínu, þeir gleyma þeim örugglega ekki.

Það er út af fyrir sig rétt hjá hæstv. ráðherra að hægt er að færa rök fyrir því að samfélagslegir kostir geti verið samfara því að auka kostnað. Ef menn horfa þannig á að betra sé að láta nýja báta leggja í kostnað og veiða sama aflamagn og hægt er að veiða með bátum sem eru þegar klárir til veiða er alveg hægt að færa rök fyrir því. Það býr til vinnu fyrir iðnaðarmenn, ýmsa þjónustuaðila o.s.frv. En það breytir engu um hinn hagræna raunveruleika sem er sá að með þessu aukum við væntanlega tilkostnað við þessar veiðar og sá kostnaður verður þá bara einu sinni greiddur. Það er þetta sem ég var einfaldlega að vekja athygli á.

Hæstv. ráðherra talaði um svæðaskiptinguna og sagði að Alþingi gæti bara sett lög ef Alþingi vildi hafa þetta einhvern veginn öðruvísi. Það er einmitt núna sem við höfum tækifæri til að setja þessi lög, búa til þennan ramma. Ef við erum á þeirri skoðun, eins og ég hef vakið athygli á, að svæðaskiptingin hafi mistekist, hún hafi ekki verið endurspeglun á þeim veiðum sem raunverulega fóru fram vegna þess að hún byggðist á úthlutun á byggðakvóta sem er allt annað mál, vil ég einfaldlega höfða til sanngirni hæstv. ráðherra þegar ég segi: Ef hæstv. ráðherra vill endilega hafa þessa svæðaskiptingu til frambúðar þá væri a.m.k. eðlilegt að hann reyndi að búa til nýja viðmiðun sem byggðist á raunverulegri veiði á grundvelli þessara laga heldur en styðjast við einhverja úthlutun á byggðakvóta sem kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við.