138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:44]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ekkert mæli gegn því að þetta ár verði notað sem tilraun við svæðaskiptinguna. Það er ekkert sem segir að ráðherra þurfi til allrar eilífðar að setja niður endanlega svæðaskiptingu núna áður en þetta sumar gengur í garð. Satt að segja fyndist mér mun rökréttara að hann fylgdist með veiðunum í sumar og léti þá reynslu ráða gjörðum sínum, enda minnir mig að í nefndarálitinu standi að honum sé ætlað að bregðast við frá ári til árs þó að ég skuli ekki fullyrða það.

Það kemur fram í skýrslunni, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, að þessi svæðaskipting er fyrst og fremst mikilvæg af byggðasjónarmiðum. Þar sem við ræðum þessi samfélagslegu áhrif af strandveiðunum þá skipta byggðasjónarmiðin að sjálfsögðu máli. Það hélt ég að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skildi mörgum öðrum betur komandi úr Norðvesturkjördæmi.