138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið sérkennilegt að ætla sér að vaða af stað í eitthvað sem kallað er tilraun til svæðaskiptingar. Upplýsingarnar liggja fyrir. Við þurfum ekkert á svona tilraunastarfsemi að halda og ég skil ekki þessa þrákelkni af hálfu meiri hlutans í þessu máli.

Mér verður kannski á að vitna til orðatiltækis sem hæstv. ráðherra gerði einu sinni frægt með því að slá tveimur saman, að berja hausnum við steininn og stinga honum síðan í sandinn, þegar meiri hlutinn talar eins og það megi alls ekki breyta þessu þrátt fyrir að búið sé að benda á hversu fráleit þessi viðmiðun er. Ef menn vilja endilega sitja svona fast við sinn keip og hafa þessa svæðaskiptingu má a.m.k. sleppa henni á þessu ári þannig að menn fái einhverjar hugmyndir um það hver raunverulega veiðin er á einstökum svæðum miðað við þær forsendur sem þessi löggjöf setur. Það er alveg fráleitt og nær engri átt að byggja á forsendum sem (Forseti hringir.) eru úthlutun á byggðakvóta sem laut allt öðrum lögmálum (Forseti hringir.) en þessi löggjöf mun lúta.