138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að pínulítils misskilnings hafi gætt í máli hæstv. utanríkisráðherra á tilgangi þessarar lagasetningar. Tilgangur hennar laut ekki neinum byggðalegum rökum. Tilgangurinn var sá að opna almennt aðgengi að fiskveiðiauðlindinni. Það var hugsunin. Það er það sem býr að baki, þ.e. að hafa engar sérstakar takmarkanir aðrar en almenn skilyrði. Eigi menn bát sem uppfyllir þau skilyrði hafa menn möguleika á að stunda veiðar í strandveiðum. Síðan ræðst m.a. af fiskigöngum hvort það gagnast byggðunum. Það vill t.d. svo vel til að það fiskaðist vel út af Vestfjörðum og Snæfellsnesi og bátarnir þyrptust þangað. Það hafði jákvæð áhrif í þeim skilningi að miklum afla var landað í þeim byggðarlögum.

Hið neikvæða var að allt of lítið af þessum afla var unnið í þessum byggðarlögum. Allt of mikið fór út fyrir byggðarlögin til vinnslu og það er hlutur sem mér finnst a.m.k. að menn hefðu átt að huga betur að, þ.e. hvernig hægt væri að tryggja að þessi afli færi þá frekar til vinnslu í byggðunum.

Síðan fannst mér mjög athyglisvert að hlusta á hæstv. utanríkisráðherra fjalla um fiskveiðiráðgjöfina af því að hæstv. ráðherra hefur mikla þekkingu í þeim efnum eins og ég veit mjög vel. Það sem ég dró hins vegar fyrst og fremst fram var að miðað við þær forsendur, miðað við þær upplýsingar sem nú liggja t.d. fyrir í fréttatilkynningu frá Hafró — og ég tek fram að þær kunna að breytast þangað til hin endanlega ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar lítur dagsins ljós — bendir allt til þess að við horfum ekki framan í fréttir af tillögum stofnunarinnar um aukningu á þorskafla. Þegar síðan bætist við að við ætlum að taka frá 3–4% sérstaklega fyrir strandveiðarnar, sem við gerðum ekki á þessu fiskveiðiári, blasir að mínu mati við að við getum frekar gert ráð fyrir því að krókaaflamarksbátarnir og aflamarksbátarnir (Forseti hringir.) fái á grundvelli þessa á sig skerðingu í þorski frekar en aukningu.