138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[19:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Markmið fiskveiðstjórnarlaganna er einmitt verndun og hagkvæmari nýting. Þeim markmiðum hefur verið náð, það er alveg óumdeilanlegt.

Margir kalla það byggðaröskun af völdum kvótakerfisins. Byggðaröskunin er ekki fiskveiðistjórnarkerfinu að kenna vegna þess að kvótinn sem er seldur frá einum stað fer á einhvern annan stað og ekki hefur hann farið á höfuðborgarsvæðið. Þetta markmið hefur einmitt náðst og það er þetta sem við eigum auðvitað að hafa sem aðalmarkmiðið í okkar sjávarútvegi, að hann sé rekinn með eins hagkvæmum hætti og hægt er og hann verndi þessa sjálfbæru auðlind okkar þannig að hún verði til nýtingar fyrir komandi kynslóðir í samfélagi okkar.

Sú breyting sem við erum að gera með strandveiðunum eykur klárlega á óhagkvæmnina. Hún hefur ekkert með eflingu byggðanna að gera, ekki neitt, þannig að hún gengur í raun þvert á þau meginmarkmið fiskveiðistjórnarlaganna, það eru full rök fyrir því.

Það sem hefur brugðist hjá okkur sem þingi, má segja, í gegnum árin, frá því að við settum okkur þessi markmið með fiskveiðistjórnarkerfinu sem hafa gengið svo vel eftir, er að skapa önnur atvinnutækifæri úti um land til þess að mæta þeim samdrætti sem óumflýjanlega varð af aukinni hagkvæmni, aukinni tækni, minni mannskap, færri skipum, því sem varð að gerast ef eitthvað átti að fást út úr þessari grein fyrir þá sem í henni störfuðu, fyrir þá sem ráku fyrirtækin og fyrir okkur sem þjóð í heild. Við brugðumst í því að skapa önnur tækifæri og önnur verkefni fyrir það fólk sem varð að hverfa frá þessum iðnaði (Forseti hringir.) yfir í einhver önnur störf.