138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum ákaflega þarft mál og fagna ég því að hér sé komið fram frumvarp til heildarlaga um skeldýrarækt. Það er afar nauðsynlegt að slík lög verði sett. Ég ræddi það hér við 1. umr. þegar við ræddum skipulagslögin og þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að taka það mál upp og að það sé komið til umræðu í umhverfisnefnd. Þá hvatti ég einmitt umhverfisnefnd og ráðuneytið til þess að taka á þeim þætti og bæta því inn í skipulagslögin að taka tillit til þarfa sveitarfélaga til að geta skipulagt í fjörðum utan landsins í tengslum við landið því að auðvitað er það hluti af uppbyggingu sveitarfélagsins.

Sveitarfélögum er ætlað í skipulagslögum að setja sér aðalskipulag. Öll sveitarfélög í landinu eiga að vera búin að því. Í 1. gr. skipulagslaga, bæði núverandi og eins því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu, er markmiðið að þar komi fram þróun byggðar og landnotkun og taka eigi tillit til efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra þarfa íbúa sveitarfélagsins og heildarinnar. Það segir sig sjálft að ekki er hægt að undanskilja þennan þátt atvinnustarfsemi sveitarfélagsins eða íbúaþróun, í hvaða átt viðkomandi sveitarfélag vill þróast og að hvaða landnotkun og náttúrunýtingu það vill stefna. Þess vegna er mikilvægt að sveitarfélögin komi að þessu máli og er stórfurðulegt að hægt sé að semja þetta frumvarp í ráðuneytinu án þess að minnast einu orði á sveitarfélögin, ekki einu sinni í öllu frumvarpinu. Það er mér eiginlega óskiljanlegt.

Nú er ég eiginlega búinn með jákvæða þátt frumvarpsins, þ.e. ég fagna að það sé komið fram, en ætla að nefna þrjú atriði sem ég tel vera neikvæð og þurfa gagngerrar endurskoðunar og skoðunar við.

Fyrsti þátturinn, sem ég hef reyndar nefnt um fleiri frumvörp sem hafa komið frá því ágæta ráðuneyti og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er þetta ráðherraræði sem virðist ganga þar þvert í gegn. Stefnt er að mjög grófri rammaáætlun þar sem vald er í síauknum mæli fært til ráðherra og heimildir til að grípa inn í og gera hvað sem er.

Í því sambandi langar mig að grípa niður í nokkrar greinar og hefja lestur, með leyfi forseta, en þær hljóma svona:

Í 4. gr. stendur:

„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt stjórnsýslunni eru þau að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem er vel að merkja ríkisstofnun á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í 5. gr. stendur:

„Ráðherra er heimilt, ef vistfræðileg eða hagræn rök mæla með því, að ákveða samkvæmt lögum þessum skipulag og skiptingu …“

Skipulagsvaldið er fært þarna yfir. Í sömu grein stendur:

„Ráðherra getur falið Fiskistofu umsjón með skipulagi …“

Það er mjög sérstakt og ég kannast ekki við að skipulagslögin heimili nokkrum ráðherra það.

„Áður en ákvörðun um slíka svæðaskiptingu er tekin skal ráðherra m.a. afla umsagna …“

Umsagna hverra? Fiskistofu? Hafrannsóknastofnunar? Matvælastofnunar? Orkustofnunar? Siglingastofnunar og Umhverfisstofnunar? Þetta eru allt ríkisstofnanir. Hvergi er minnst á sveitarfélögin. Hvergi er minnst á neina aðra hagsmunaaðila. Mjög sérstakt.

Í 6. gr. stendur:

„Ráðherra getur takmarkað eða bannað skeldýrarækt … Áður en ákvörðun um slíkt bann er tekin getur ráðherra aflað umsagna …“

Aftur koma þessar ríkisstofnanir. Sem sagt hálfgert gerræðisvald ráðherrans.

Í 8. gr. er fjallað um heilnæmiskönnun sem er stórt orð og hugtak sem væri gaman að fá skilgreint. Ég tek undir orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar sem var að ýja að því að það þyrfti að skilgreina eitthvað. En þar er enn eitt heimildarákvæði til ráðherra um að ákveða hvort sá kostnaður sem annars almennt skuli greiddur af umsækjanda skuli greiddur úr ríkissjóði að hluta eða öllu leyti ef fjárheimildir fást til þess í fjárlögum. Hvenær á ráðherra að greiða þennan heilnæmiskostnað og hvenær ekki? Fer það eftir því hver sækir um eða aðstæðum? Hvernig á þetta eiginlega að vera?

Í 15. gr. er ráðherra eðlilega heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak opinbers eftirlits og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir eftirlit Matvælastofnunar, enda átti Matvælastofnun ein að fjalla um málið fyrir utan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Í 17. gr. er eðlilega reglugerðarheimild til ráðherra.

Ég er búinn að nefna einhverjar sex greinar þar sem ráðherra hefur alræðisvald í þessum málaflokki. Þetta gengur ekki. Þetta þarf að vera skilgreint mikið betur. Þó að gott og nauðsynlegt sé að setja heildarlög um skeldýrarækt verður að vera einhver heil brú í því sem menn ætla að gera svo menn viti hvert stefni en ekki færa alræðisvaldið til ráðherrans.

Hinir þrír þættirnir sem ég ætla að nefna sem ágalla við þetta frumvarp snúa allir að sveitarfélögunum. Ég er aðeins búinn að koma að hinum fyrsta varðandi skipulagsmálin. Það er augljóst að frumvarpið gerir hreinlega ráð fyrir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipuleggi og úthluti ræktunarsvæðum meðfram ströndum landsins án nokkurs samráðs við sveitarfélögin. Einu takmarkanirnar á ákvörðun ráðherra um skipulag og úthlutun er að afla umsagnar fyrrtalinna ríkisstofnana.

Í svari ráðherrans við andsvari hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar minntist hann á að skipulag sveitarfélaganna þyrfti að sækja um leyfi fyrir þessu. Það hefði þurft að standa þarna því að augljóst er að það er akkúrat vandinn og hann er þegar fyrir hendi. Jón Jónsson getur sett niður og þarf ekki neitt leyfi, fær hvorki né getur sótt um tilraunaleyfi eða ræktunarleyfi, hann fer bara og setur niður bandspotta. Svo kemur Guðrún Jónsdóttir og setur niður við hliðina á honum og svo kemur Sigurður Sigurðsson daginn eftir. Allir geta gert þetta án þess að hafa samráð hver við annan. Þetta gengur auðvitað ekki. Þess vegna benti ég á þetta þegar við fjölluðum um skipulagslögin. Til þessa verður auðvitað að taka tillit.

Þess vegna held ég að nauðsynlegt sé varðandi skipulagsþáttinn að málum sé ekki einungis vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar heldur einnig til umhverfisnefndar til umfjöllunar. Geri ég það hér að tillögu minni í pontu, frú forseti.

Annað til ítrekunar: Ef frumvarpið verður að lögum eins og það er nú þá er í raun verið að svipta skipulagsvaldið réttinum til að skipuleggja landsvæði og þar af leiðandi að stýra markmiðum um uppbyggingu og íbúaþróun o.s.frv. Þetta er algjörlega í bága við önnur lög um landnýtingu og nýtingu auðlinda í hafi, m.a. lög um fiskeldi sem áður voru nefnd. Eins er líka í þeim lögum fjallað um leyfisveitingar til mannvirkjagerðar. Þær eru augljóslega á höndum sveitarstjórnar eftir því sem við á.

Annað atriði fyrir utan aðalskipulags- eða skipulagsmál er aðkoma heilbrigðisnefndanna sem hefur aðeins verið nefnd í fyrri ræðum eða andsvörum. Það vekur athygli mína að á þær er heldur ekki minnst í frumvarpinu. Þær hafa hvorki eftirlits- né umsagnarhlutverk. Staðreyndin er sú að nú sækja menn einmitt um leyfi til heilbrigðisnefndanna til að fara út í slíkar framkvæmdir. Þær hafa staðið með það í höndunum án þess að hafa nokkurn lagaramma til að styðjast við um hvernig þær eigi að gera þetta. Það er augljóst að þetta gengur ekki.

Það getur verið ákvörðun ráðuneytisins að færa allt matvælaeftirlit til Matvælastofnunar eins og kom fram í matvælalögunum. Engu að síður hefur heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna eftirlit með mengunarvörnum og þar af leiðandi eftirlit með fráveitum sveitarfélaga. Sveitarfélögin og heilbrigðisnefndirnar hafa fengið þann beiska kaleik frá þinginu að flokka allt vatn, þar á meðal strandsjó, samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Það er gríðarlega mikið verkefni sem við getum kannski fjallað um síðar.

Þess vegna er algjörlega óskiljanlegt að ekki skuli vera fjallað um heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga í þessu samhengi og þeirra verkefni. Þar liggja þó upplýsingarnar og þekkingin á því hvort heilnæmt sé að fara með kræklingarækt út í fjörð þar sem fráveitur sveitarfélagsins fara út í eða eitthvað annað ef sú þekking er á annað borð til.

Þannig að maður getur haldið því fram að frumvarpið gangi hreinlega gegn gildandi reglugerðum og lögum um vatnsvernd og markmið um skipulag laganna þar að lútandi.

Auðvitað má benda á, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson gerði í sambandi við framsal, sem við fjölluðum mikið um í matvælafrumvarpinu og lögunum sem síðan urðu, að þar var hreinlega sett inn framsalsheimild milli heilbrigðiseftirlitanna og sveitarfélaga og Matvælastofnunar. Það er ekkert óeðlilegt við að slíkt framsal sé sett hér inn líka ef það þykir henta.

Þriðja atriðið sem ég ætlaði að nefna að lokum um þetta mál er önnur lög sem liggja hér fyrir þinginu. Það er frumvarp til laga um mannvirki sem tengist skipulags- og byggingarmálum. Það er dæmi um ósamræmi og illa undirbúið mál eins og mér hefur stundum fundist koma inn í þingið. Eitt ráðuneyti kemur með lagabálk um þetta og svo kemur annað ráðuneyti með annan og þeir rekast á. Nú af því að hv. þm. Anna Margrét Guðjónsdóttir minntist hér á Sóknaráætlun 20/20 þá er einmitt í henni fjallað um samþættingu áætlana. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég kem hér upp og bendi á að núverandi ríkisstjórn tali um Sóknaráætlun 20/20 og samþættingu áætlana og kemur síðan með lög á lög ofan sem rekast hver á önnur. Hér vantar skilgreindari og ákveðnari stefnu. Það er mikill ágalli á þessu frumvarpi að ekkert hefur verið tekið tillit til þessara ákvæða sem eru í frumvarpinu til mannvirkjalaga ef við horfum til lengri tíma. Nú veitir byggingarfulltrúinn þetta leyfi en í framtíðinni er hugsað að það verði Byggingarstofnun sem er ný ríkisstofnun og mun fara með leyfi til mannvirkjagerðar á sjó eða við strendur.

Það er líka merkilegt að í frumvarpinu kemur fram ný skilgreining á hugtakinu mannvirki. Að sú skilgreining skuli ekki vera tekin beint upp úr lögum eða frumvarpinu um mannvirkjagerð er mjög merkilegt, að ekki skuli vera sama skilgreining á hugtaki sem ríkisvaldið notar í einum eða öðrum lögum. Þetta gengur ekki upp og þarf endurskoðunar við.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þetta mál verður ekki bara að fara til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar heldur einnig hv. umhverfisnefndar til umfjöllunar vegna skipulags- og mannvirkjahlutarins.

Ég ætla að enda á því að leyfa þingheimi að átta sig á um hvað þessi hugtök fjalla. Í 3. gr. frumvarpsins er farið nokkuð létt með hugtakið „mannvirki“. Skilgreiningin er, með leyfi forseta:

„Hvers konar byggingar og búnaður sem notaður er við ræktun skeldýra.“

Aftur á móti er mannvirki í 3. gr. frumvarpsins til mannvirkjalaga skilgreint með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Hvers konar jarðfastar, manngerðar framkvæmdir, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautarbúnaður til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt lögum þessum.“

Ætti þar af leiðandi að vera augljóst að þessu er nokkuð ábótavant og þarf að vinna þetta mun betur. Ég vil þó ítreka í lok máls míns að það er mjög nauðsynlegt að heildarlög um skeldýrarækt séu sett en það þarf að vinna þau betur en það sem hér er sett á borð.